Átti þátt í björgun 640 skipa um ævina
Í minningu Eiríks Kristóferssonar, skipherra (1892-1994)
Eiríkur Kristófersson, frá Brekkuvelli á Barðaströnd, var ekki einungis mikil kempa og þjóðkunnur fyrir framgöngu sína í þorskastríðum, heldur var hann mjög vel látinn drengskaparmaður. Hann var þekktur langt út fyrir landsteinana og sálfræðilegur stríðsrekstur hans var á sínum tíma mikið fréttaefni í breskum fjölmiðlum. Eiríkur Kristófersson var skipherra hjá Gæslunni um nær fjögurra áratuga skeið og átti þátt í björgun 640 skipa um ævina, þar af 100 sem stýrimaður og 540 sem skipherra.
Á sínum tíma notaði Eiríkur skipherra tilvitnanir úr biblíunni á Tjallana í fyrsta þorskastríðinu. Og vann það stríð sem frægt var. Bresku aðmírálarnir sendu gjarnan klausur úr Biblíunni í niðurlagi skýrslna sinna til flotamálaráðuneytisins í Lundúnum. Í upphafi fyrsta þorskastríðsins sendi Barry Anderson flotaforingi eftirfarandi ritningargrein úr orðskviðum Salómons til yfirmanna sinna í White Hall: „Þegar óguðlegum fjölgar, fjölgar og misgjörðum, en réttlátir munu horfa á fall þeirra.“
Eiríkur náði þessu í talstöðinni á Þór. Með aðstoð Stefáns Jónssonar fréttamanns, sem staddur var um borð, sendi hann Anderson eftirfarandi úr þeim sömu Orðskviðum: „Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla, og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér. Þannig fer fyrir öllum þeim sem fíknir eru í rangfenginn gróða: Fíknin verður þeim að fjörlesti.“
Þegar Eiríkur stundaði nám í Stýrimannaskólanum, leigði hann herbergi hjá Jónu Bergljótu Einarsdóttur Thoroddsen, ekkju Eiríks Eiríkssonar bónda í Efri-Tungu í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Hún bjó þar ásamt eldri dóttur sinni, sem Sigrún hét.
Dag nokkurn er hann kom heim úr skólanum,fór hann fram í eldhús að fá sé kaffisopa. Þá sá hann hvar stúlka stóð á stól og var að teygja sig upp í skáp.
„Hver skyldi þetta nú vera“, spurði hann sjálfan sig, kippti stelpunni niður af stólnum og heilsaði henni með kossi. Hún brást við hin reiðasta, hleypti brúnum og sagði:
„Þetta megið þér aldrei gera.“
Þá kyssti ég hana aftur og spurð: „Var það þetta sem ég mátti ekki gera?“
Hér var komin yngri dóttir húsfreyjunnar, Jóhanna Eiríksdóttir, og átti það fyrir þeim að liggja að verða lífsförunautar.
Eitt sinn er Eiríkur var nýkominn heim, lá hann uppi í dívan í herbergi sínu. Hurðin stóð í hálfa gátt. Litlu síðar kemur Jóhanna inn til hans. Stundarkorn leið, unz hann heyrði að húsmóðirin læddist að herbergi hans og lokaði hurðinni. Þetta tók hann sem merki þess að henni væri ekki á móti skapi, þótt þau felldu hugi saman, hann og dóttir hennar. Sú gamla var geðrík og hreinskiptin og þegar henni þótti dragast úr hömlu að þau giftu sig, skammaði hún Eirík duglega.
Þess skal getið til gamans, að Hákon J. Sturluson, bóndi á Borg og Hjallkárseyri í Arnarfirði, var bróðursonur Eiríks.
(Sjá Eldhress í heila öld eftir Gylfa Gröndal, Forlagið Rvk. 1993)
Hallgrímur Sveinsson.