Alþýðuskáld í Auðkúluhreppi: - Njáll Sighvatsson - Seinni hluti
Þegar hér er komið sögu, er Þórður, sonur þeirra, orðinn búfræðingur frá Hvanneyri og tekur nú á leigu hluta af jörðinni Hrafnseyri 1929 og hefur þar búskap, ásamt unnustu sinni Daðínu Jónasdóttur, úr Reykjarfirði í Suðurfjörðum í Arnarfirði. Fara þau til þeirra fyrst þar og síðan í Stapadal frá 1937 til 1948 og þar lést Jónína árið 1942.
Í Stapadal hafði Njáll smiðju og hélt áfram smíðum sínum, en nú mest járnsmíði, ásamt því að sinna þeim bústörfum sem til féllu. Hann var til dæmis talinn með betri sláttumönnum og heyrði ég til þess tekið, hvað honum beit vel. Eitt af hans föstu verkum var að hirða um fjósið, gefa, vatna og moka flórinn. Árið 1948 flytur Þórður með bú sitt og fjölskyldu að Auðkúlu og þar lést Njáll 18. mars 1950.
Þegar hann var orðinn rúmfastur og lá banaleguna, sat faðir minn inni hjá honum flest kvöld, en það kom þó fyrir að ég var látinn sitja hjá honum og lesa um leið lexíurnar mínar, þá að verða 13 ára. Og það get ég fullyrt, að eftir þau kvöld kunni ég betur það sem verið var að læra hverju sinni, hvort heldur það var landafræði, kristinfræði eða önnur þau lesfög sem þá voru kennd, því þá fékk ég skýringar á mörgu því sem ég átti erfitt með að skilja, svo sem skuldunautunum í faðirvorinu.
Alla ævi orti Njáll mikið, þó hann teldi sig vart meira en hagyrðing. Til eru 540 vélritaðar síður í A-4 broti af skáldskap hans, sem tekið var saman úr handritum hans. Þó er vitað að ekki hefur allt geymst þar og má til dæmis nefna bæjarrímurnar sem hann orti um alla bæi og ábúendur þeirra í Auðkúluhreppi árið 1903 og aðrar til samanburðar 1943, en þær eru til á öðrum stað. Eins er með vísur sem kastað var fram í amstri dagsins og tilheyrðu stund og stað eða einstöku tilviki. Hafa þær eflaust verið margar sem glötuðust jafnharðan.
Oft var hann beðinn um vísur og kvæði. Mikið var um það að hann orti eftirmæli um látið samferðafólk, bæði ungt og gamalt. Eins voru trúarleg ljóð og bænir ríkur þáttur í skáldskap hans. Og ótrúlega marga bragar- og kveðskaparhætti hafði hann á valdi sínu.
Neftóbak notaði hann lengst af ævi sinnar, en í seinna stríðinu fékkst ekki nema eitthvert lélegt tóbak, sem hann felldi sig ekki við, svo hann ákvað að hætta að taka í nefið. En það varð til þess að hann missti skáldskapargáfuna, og kenndi hann því um; sagði að sér dytti stundum í hug fyrripartur eða seinnipartur, en sér væri ógjörningur að prjóna nokkru við. Svo eftir tvö ár eða svo, fór hann aftur að taka í nefið og um leið gat hann aftur farið að yrkja.
Veiðimaður var hann og hafði bæði gagn og gaman af því að fara með byssu og skaut hann talsvert bæði af ref og sel og jafnvel hnísur, en til þess þurfti mikla nákvæmni.
(Tekið saman í febrúar 1998, með ómetanlegri aðstoð Skarphéðins Njálssonar.)
Sýnishorn af kveðskap Njáls Sighvatssonar
Æskudagar
Við erfið kjör, þó aldrei væri kvalinn
mér uppvöxturinn litla sælu bjó,
sem kuldastrá í kærleiks nafni alinn
og kærleiksverkið þótti meir en nóg.
Um vorkunnsemi var ei margt að ræða,
þó veikum mætti strýddu lítil bein,
því stritið virtist fegurst allra fræða
og fullkomnasta lífsins hjálpargrein.
Á öngvu sást að ætti góða móður
að aðstoð þaðan hafði lítil not,
ei sá ég heldur systur eða bróður
af samúð valla þekkti minnsta brot.
Til foreldranna fýsti brátt að leita,
en fannst ei kleift, um æði langan spöl,
sem ástúðlegra viðmót kynnu veita,
en vandist hér í svokallaðri dvöl.
Af æsku minni er fremur fátt að segja,
til framaverka þótti stirður mjög
af fræðakosti fékk ég þó að eygja,
hvað fyrirskipa Guðs og manna lög.
Svo að ég rétta götu skyldi ganga
í gegnum lífsins ódáðanna hraun,
ef auðnast kynni, eftir reisu langa,
eitthvað sem voluð Guðsbörn fá í laun.
Með góðu rikti komst ég yfir kverið
og hvað af öðru sem þá heimtað var,
eg las í kirkju, líkt og hafði verið
um langa tíð, og greiddi spurningar.
Og nú var runninn nýr og merkur dagur,
því nú kom einn, í mannfélagið þegn,
með kristinn hjúp, sem flestum þótti fagur,
en fjöldamargir rísa nú í gegn.
Mér æskan hvarf, þó brosti mörgum betur,
en bjartar vonir rísa tóku skjótt,
hver framaþrá, til fremda jafnan hvetur,
mér fannst sem birti eftir langa nótt.
Ég þóttist hafa löngun til að læra,
en lánið ekki veitti slíka náð,
og við því bjargi var ei létt að hræra,
svo vonin brást, því öflug skorti ráð.
Um orðinn hlut er ekki vert að ræða,
því ótal vegi skapar Drottins hönd,
ei liggur alltaf leið til sigurhæða
þó lofi gulli fögur draumalönd.
Þær efndir verður erfiðast að finna
því æskubjarmi villir mörgum sýn,
en dáinn röðull dýrstu vona minna
í djúpið hvarf og aldrei framar skín.
Í skóla lífsins, skráður hlaut að vera,
og skipað þar með yst á lægsta bekk,
en þar er ekki um upplýsing að gera,
og í því sæti misjafnlega gekk.
Þótt skólastjórinn flesta kunni fræða,
fyrnist ei hans gamla skipulag,
um einkunn þar er ekki fleira að ræða,
hver útskrifast á sínum lokadag.
Veiðiförin
(Drengur á sjöunda ári ætlaði að rota svartfugl)
Ég sá einn fugl með svörtu baki
synda hér upp að vörinni.
Öflugu varinn vængjataki,
vatt sér á stein í fjörunni.
Veiðihug mér þá vaxa fann,
vildi ég reyna að drepa hann.
Ég fór með stein í hægri hendi
hann var nú ekkert smáræði.
Svartfuglinn blés, þá bjargið sendi,
búið sér þótti skaðræði.
Flaug eins og píla fram á sjó,
fannst honum þetta meir en nóg.
Mörgum er veiði sýnd í svipinn
sjáum hér dæmið eitt af því.
Upp er ei sérhver afli gripinn,
þó augsýn vora komist í.
Maðurinn mæddur snéri frá,
markinu hlaut á bak að sjá.