A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
09.02.2011 - 16:17 | Bjarni Guðmundsson

Af lítilli sparisjóðsbók

Bjarni Guðmundsson
Bjarni Guðmundsson
Fyrir meira en heilli öld komu nokkrir fátækir menn saman til þess að stofna sparisjóð. Þeir áttu sér draum um að efla byggðina sína: auka útgerð, og bæta jarðirnar og fleira. Þeir gengust í ábyrgð fyrir upphæð hver og einn, upphæð sem okkur þykir ekki stór nú en munaði um á þeirri tíð. Hægt og sígandi óx sparisjóðurinn. Vissulega voru viðskiptavinirnir misjafnir eins og gengur. Reist var hús yfir sjóðinn, fallegt hús á besta stað í þorpinu.


Örsmár fór ég þangað með mömmu. Man enn hve hátt var til lofts og hve virðulegar mennirnir tveir voru, sem sátu innan við  borðið er skildi á milli almennings og hins helgari hluta sparisjóðsins. Feiminn rétti ég fram aurana mína, sem mennirnir tóku góðlega við. Skrifuðu eitthvað í litla bók, sem þeir afhentu mér. Ég hafði eignast sparisjóðsbók. Á hana enn einhvers staðar ógilta með fagurrituðum tölum um það sem ég megnaði að leggja inn og hitt sem fór í það að halda mér í skóla á unglingsárum og annað spandelsi.


Afi minn og langafi tengdust þessum sjóði, móðurbróðir og fleiri venslamenn líka en ég settist að í öðrum landshluta; líklega einustu sýslu landsins sem átti víst aldrei sparisjóð. Hóf hins viðskipti við sparisjóðinn handan við sýslumörkin.  Mér fannst gott að geta áfram átt sparisjóð að og þurfa ekki að skipta við ópersónulegan banka. Og það voru fleiri af mínum sem tengdust sparisjóði.


Það gerði líka ömmubróðir minn í þorpi suður með sjó er hann settist þar að sem kennari. Varð líka sparisjóðsstjóri. Trúr vestfirsku uppeldi sínu var hann fastur á fé sjóðsins og fylgdist grannt með gerðum lánþega hans. Mér er sagt að hann hafi tekið sér göngur á sunnudagsmorgnum til þess að kanna hvað liði framkvæmdum hjá þeim er nutu lánsfjár sjóðsins: „Á þetta að verða félagsheimili?", mun hann til dæmis hafa spurt saklausan húsbyggjanda, sem honum þótti reisa sér íbúðarhús við vöxt ...


Og tímarnir liðu.  Afar mínir hvíla nú  í kirkjugarði þorpsins við Dýrafjörð og ömmubróðir hvarf líka í garðinn í sjávarplássinu fyrir sunnan. Þeir létu þó víst mála af honum mynd sem fyllir heilan vegg þar í sparisjóðnum, er mér sagt. Kunnu að meta karlinn þrátt fyrir allt.


Veröldin veltist áfram með auknum hraða. Gamli sparisjóðurinn minn lifði lengi, stundum gekk vel og stundum ekki alveg eins vel en farsællega, heyrði ég, hin síðari árin einnig. En svo þótti ráð að sameina hann fleirum; þeir sögðu að tímarnir krefðust þess.


Viðskiptasparisjóðurinn minn handan við sýslumörkin taldi sér ekki duga að höndla bara með peningana mína og annarra venjulegra viðskiptavina: kvaðst þurfa að taka þátt í stærri viðskiptum, fara í útrás, yrði að standast samkeppnina, sögðu þeir á efri hæðinni þar í reisulegri nýbyggingunni sem minnir mig þó á Peningatank Jóakims aðalsandar. Og allir urðu glaðir. - Um tíma. Einn dapran júnídag fyrir rúmum tveimur féll sá sparisjóður. Fallið var mikið. Við urðum hissa en það reyndist aðeins undanfari enn meiri skelfinga ...


Það herti líka að gamla sparisjóðnum mínum fyrir vestan. Mér þótti þó undur vænt um að eiga þar enn sparisjóðsbók, ekki síst af því að sú var komin frá afa mínum og nafna; var eiginlega dálítill arfur eftir hann.

En skrýtin er veröldin því allt í einu komst sparisjóður ömmubróður míns í sjávarplássinu fyrir sunnan yfir gamla sparisjóðinn við fjörðinn minn góða fyrir vestan. Ég laumaðist til þess að halda að þannig mundi sparisjóðurinn lifa af - að ræturnar gömlu mundu halda.


En það fór ekki svo og söguna virðist mega gera stutta: Í stað kynslóðanna sem gengu sig upp að hnjám til þess að verja og efla sparisjóðinn minn svo gætti og ávaxtaði fé hárra og lágra í byggðarlaginu hafði sparisjóðurinn stóri lent í höndum manna sem aurarnir höfðu gert að öpum. Þeir hafa ekki bara vanvirt byggðina mína gömlu og trúmennsku þeirra er lögðu mikið á sig til þess að ávaxta þau verðmæti er byggðin fól þeim.  Þeir hafa líka kallað stórskaða yfir alsaklausa meðborgara, skaða sem þeir geta líklega aldrei bætt. Hvort um skömmina munar fer eftir hugarfari þeirra sjálfra. 


Mér finnst hins vegar gott að mega geyma í minningunni mynd af ömmubróður mínum, Guðmundi sparisjóðsstjóra í Keflavík Guðmundssyni, og þá ekki síður þeim Angantý  Arngrímssyni og Ólafi Ólafssyni heima á Þingeyri þar sem þeir fyrir meira en sextíu árum sitja við borðið í Sparisjóðnum, taka við aurum lítils drengs og færa tölur í bláleita harðspjaldabók með innsigli aftast:


Þótt litla sparisjóðsbókin hafi verið ógilt fyrir löngu er hún mér enn áminning um það að til getur verið traust. Trausti er auðveldara að glata en þess að gæta:  Gæsla snýst um góðan vilja og trúmennsku.  

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31