A A A
  • 1926 - Jökull Sigtryggsson
  • 1946 - Katrín Eiríksdóttir
  • 1979 - Sólveig Eirný Sveinsdóttir
27.07.2014 - 19:30 | Hallgrímur Sveinsson

Ævintýrið um Kjaransbraut

Feðgar tveir, Elís og Ragnar, staddir í Hrafnholum í Ófæruvík undir Helgafelli þegar hæst stóð. Ljósm. Elín Pálmadóttir, Mbl.
Feðgar tveir, Elís og Ragnar, staddir í Hrafnholum í Ófæruvík undir Helgafelli þegar hæst stóð. Ljósm. Elín Pálmadóttir, Mbl.
« 1 af 2 »

Þessa dagana er allt á ferð og flugi í Vestfirsku Ölpunum. Akandi menn, ríðandi, gangandi, hjólandi og hlaupandi svokallað Vesturgötuhlaup. Því  er rétt að rifja upp að vegurinn milli Keldudals í Dýrafirði og Stapadals í Arnarfirði hlaut á sínum tíma nafnið Kjaransbraut. Var það að vonum að vegur þessi væri nefndur svo í höfuðið á skapara sínum, Elísi Kjaran (1928-2008) frá Kjaransstöðum í Dýrafirði, brautryðjandanum vestfirska. Að fá veg heim í hlað var stórkostleg framför fyrir bændur og búalið á svæðinu. Og Kjaransbraut  gerði að verkum að ævintýraheimur landslags og sögu opnaðist fyrir gestum og gangandi. Það áttu menn Elísi Kjaran að þakka. Hann  var einhver mesti vegagerðarkappi sem Vestfirðingar hafa átt og eru þó ýmsir góðir sem fylla þann flokk.

Troðningurinn betri en þjóðvegurinn!


    Frá því er að segja að fyrir allmörgum árum var Matthías Bjarnason, Elís Kjaran og fleiri staddir í eldhúsinu á Hrafnseyri að drekka kaffi hjá frú Guðrúnu Steinþórsdóttur. Þá kvað Matthías samgönguráðherra upp úr með það, að það væri helvíti hart að þurfa að viðurkenna, að þessi troðningur hans Ella fyrir nesið væri betri yfirferðar á köflum en sjálfur þjóðvegurinn í Arnarfirði og yfir Hrafnseyrarheiði, en þá var hann með versta móti. Taldi Matthías að verðugt væri að troðningurinn hlyti nafn og stakk upp á að hann yrði kallaður Kjaransbraut.

 

 

 Séra Stefán hvatti hann stöðugt og hughreysti

 

   Elís Kjaran segir frá því í bókinni  sinni, Svalvogavegur, að æðstu yfirmenn vegamála hafi hvorki viljað sjá hann né heyra þegar hann árið 1973 byrjaði að brölta í Hrafnholum utan Keldudals. Sem var að vísu svakalegt vegstæði og skiljanlegt að vissu leyti að Vegagerðin vildi ekki koma nálægt slíku uppátæki. Hafði gefist upp við vegarlagningu þar nokkrum árum fyrr. En Elli tók upp þráðinn á sitt eindæmi, með son sinn Ragnar sér við hlið, á litlu ýtunni sinni.

   En það var einn maður sem stóð eins og klettur við hlið hans: Séra Stefán Eggertsson á Þingeyri, sem var á sinn hátt einnig mikill brautryðjandi í samgöngumálum hér vestra líkt og Elli, einkum á flugleiðunum. Hann sagði að séra Stefán hefði hvatt sig stöðugt og hreinlega hughreyst  í þessum neikvæðu viðtökum. Séra Stefán sagði: Þeir eiga eftir að átta sig og læra að meta þetta.

 

 

Syrtir í álinn

 

Þáverandi vegamálastjóri var harðsoðinn framsóknarmaður eins og þeir vinirnir báðir. Hann vildi hvorki sjá Ella né heyra, þó séra Stefán byðist til að fara með hann út í Hrafnholur til hans. Fjármálaráðherrann þáverandi, Halldór E.  kom að hitta séra Stefán. Hann bauðst til að fara með kallinn til  að skoða undrið í klettunum. Það vildi hann ekki fyrir nokkurn mun, þó þeir Elli væru vel málkunnugir.  Þá tók Elli svo til orða: Þegar framsóknarráðherra er hættur að þekkja flokksbróður sinn er virkilega farið að syrta í álinn.

  

 Þá vildu allir Lilju kveðið hafa nema Vegagerðin

 

   Þegar vegurinn var kominn í Svalvoga vildu allir Lilju kveðið hafa nema Vegagerðin. Þorvaldur Garðar kom og sagði það alltaf hafa verið sitt áhugamál að koma vegi í Svalvoga. Hann væri búinn að berjast fyrir því lengi. Lofaði Ella fjögur hundruð þúsundum í veginn.

   Næstur framámanna kom samgönguráðherrann Hannibal. Hann mælti svo: Vegurinn er kraftaverk! Ef svona afreksmenn fá ekki Fálkaorðuna veit ég ekki hver á að fá hana. Elli sagðist ekki kæra sig um Fálkaorðu. En andvirði hennar gæti hann notað í veginn. Hann fékk auðvitað aldrei neina orðu né peninga út á hana.

   Svo komu þeir Þórður á Múla og Knútur á Kirkjubóli með Steingrím Hermannsson. Þeir voru afar hrifnir af gangi mála, Steingrímur þó mest. Þá voru eftir nokkur hundruð metrar í gegnum úfið hraunið heim að Svalvogum. Hvar ætlarðu að fara með veg í gegnum þetta land? spurði Steingrímur. Ég sló út hendi og benti sagði Elli. Steingrímur mælti: Með þessari vél? Og svarið var: Ég hef ekki annað. Ég var búinn að segja honum hverju Þorvaldur Garðar hafði lofað. Og Hannibal.

   Þá sagði kappinn og tók þétt í höndina á mér: Þú mátt eiga von á hálfri milljón til breikkunar á klettunum. Það kemur fljótlega.

 

Það munaði um hálfu milljónina!

   

Til gamans skal nú vitnað beint í ýtustjórann knáa:

   „Tíu árum síðar fór ég með Ólaf Þ. Þórðarson alþingismann og Steingrím Hermannsson á jeppanum mínum í heimsókn til Siggu á Hrafnabjörgum. Þá segir Steingrímur þegar við ökum um Hrafnholurnar: Ég sé að það hefur munað um þessa hálfu milljón sem ég sendi þér.

   Mér varð svo mikið um að ég drap á bílnum og spurði á móti: Ætlarðu að segja að þú hafir sent mér peninga í þetta verk?

Steingrímur leit á mig og svaraði: Já, Elís. Ég sendi það á Vegagerðina á Ísafirði, merkt þér í Svalvogaveg.

   Þá höfum við það. Ekki efast ég um að Steingrímur segi satt. Og þá læðist að mér spurning: Kannski Þorvaldur Garðar hafi gert eins?“

Hallgrímur Sveinsson.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30