A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
24.12.2009 - 14:02 |

Aðfangadagur jóla

Úr Þingeyrarkirkju
Úr Þingeyrarkirkju
Nú eru jólin alveg að ganga í garð og bærinn ljómar. Jólaljósin sem lýsa svo fallega upp dimmasta skammdegið ná með birtu sinni alla leið inn í hjörtu okkar og við komumst ekki hjá því að brosa í hvert sinn sem við sjáum fallegt ljós í glugga eða fagurlega skreyttan garð.

 

Á þessum árstíma leitar hugur minn þó alltaf í hús sem ekki var lýst upp með svo fallegum ljósum. Kannski var þar svolítil týra -lýsislampi með fífukveik kemur einhvern veginn alltaf upp í hugann. Ilmur af vel verkuðu heyi í bland við lyktina af skepnunum og þó ekki sé minnst á sauðfé  -finnst mér ég alltaf heyra í bakgrunninum í hyrndu fé á garða.  Þó ég viti ósköp vel  -að frelsarinn hafi fæðst í Betlehem, fæðist hann í huga mér í íslensku fjárhúsi um hver jól. Ég er líka viss um að ég er ekki ein um það.

 

Eitt af því sem mér þykir svo dásamlegt við fæðingu frelsarans er að hann fæddist í fjárhúsi. Því í fjárhúsum um hávetur þegar búið er að gefa og féð raðar sér á garðann, finn ég þann frið og ró í daufri birtu og ylnum frá skepnunum sem hvergi annars staðar er að finna. Af einhverjum ástæðum er það þessi tiltekni friður og ró, sem ég tel að hljóti að hafa verið í fjárhúsunum í Betlehem og var rofin með þeim barnsgráti er fylgdi fyrstu andartökum frelsarans.

 

En þetta eru aðstæður sem mörgum eru orðnar framandi. Þeir eru margir sem aldrei hafa í fjárhús komið og e.t.v. er mynd þeirra af þeim aðstæðum sem frelsarinn fæddist í allt önnur en okkar sem höfum einhvern tíma höfum verið við jötuna. Nú eða þeirra sem fara á Aðfangadag og leggja ilmandi töðu í jötuna og vitja hennar aftur á Jóladag í íslenskum fjárhúsum. Hvað gæti verið jólalegra en það?

 

Við skulum leyfa þeim frið og helgi sem hvíldi yfir fjárhúsunum í Betlehem að hvíla yfir heimilum okkar, hugum og hjörtum á helgri jólahátíð. Svo að við megum krjúpa á kné við jötuna og þakka Guði fyrir það að frelsarinn fæðist í íslenskum fjárhúsum um hver jól.

Megi góður Guð gefa okkur öllum gleðileg jól í Jesú nafni. Amen.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31