A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
03.09.2012 - 10:49 | Hallgrímur Sveinsson

Að spara á réttum stöðum

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 2 »
Forsvarsmönnum Ísafjarðarbæjar er mikill vandi á höndum við stjórn þessa víðlenda bæjarfélags sem nær alla leið frá Langanesi í Arnarfirði að Geirólfsgnúpi á Ströndum. Og þar er í mörg horn að líta og fjármunir af skornum skammti.

Fastur liður í forgangsröðun hjá Ísafjarðarbæ þegar á að fara að spara, er að takmarka aðgang fólks að íþróttamiðstöðvum bæjarins. Fækka þeim stundum sem þær eru opnar. Það nýjasta er að loka alveg í tvo daga vikunnar á Þingeyri svo dæmi sé nefnt. Þetta er merkilegt. Eiginlega stórmerkilegt.

Forn Grikkir töluðu um hrausta sál í hraustum líkama. Heldri borgarar í Dýrafirði eru mjög meðvitaðir um þetta, enda fjölmenna þeir oft í morgunklúbbinn í sundlauginni á Þingeyri. Það finnst þeim bæði nærandi og styrkjandi og fá þar hraustlegt og gott útlit. Þetta reddar deginum oft hjá mörgum þeirra.

Í morgunklúbbnum fara menn yfir sviðið, segja græskulausar skemmtisögur af náunganum, lífs og liðnum og gera ekki síður grín að sjálfum sér. Landsmálin og jafnvel heimsmálin eru krufin til mergjar. Við Valdimar á Mýrum, Bjarni á Nesi, Gunnsi Bjarna, Dúddi frá Ketilseyri, Kristján forseti, Hemmi Gunn, Siggi Þói hreppstjóri, bróðir hans Kristján bóndi í Miðbæ og Andrés frá Lokinhömrum, svo nokkrir kavalérar séu nefndir, ásamt mörgum góðum konum, vöruðum til dæmis við hruninu löngu áður en það átti sér stað. Við vöruðum sterklega við græðginni og öllu því sem henni fylgir. En því miður tók bara enginn mark á okkur, en það er önnur saga. Eftir á að hyggja hljóta allir að sjá að svona gáfufólk þarf að fá að njóta sín. Þar er heiti potturinn og kaffiborðið grundvallaratriði. Og svo náttúrlega sundtökin og sprettirnir. Sumir fara margar ferðir í lauginni fram og til baka. Einn fer til dæmis 130 ferðir á dag með forgjöf. Svaka gaman!

Undirritaður væri sennilega löngu dauður ef hann hefði ekki þessar morgunstundir til að styrkja sig andlega og líkamlega. Og þannig mun í pottinn búið hjá fleiri rugluðum gamalmennum á svæðinu. Ljóst er að við verðum að spara. Halda vel á eins og sagt er. En erum við að spara á réttum stöðum, góðir hálsar?

Hallgrímur Sveinsson
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31