Vonast eftir 20 nemum í haust
• Starf lýðháskóla á Flateyri í mótun
„Það hefur verið draumur minn að búa fyrir vestan svo mér fannst ég slá tvær flugur í einu höggi, að fá að koma að einhverju sem leiðir til aukningar á möguleikum á Flateyri og á sama tíma að fá að búa í þessu dásamlega bæjarfélagi,“ segir Helena Jónsdóttir í samtali við Morgunblaðið, en hún hefur tekið til starfa sem framkvæmdastjóri lýðháskóla á Flateyri, sem áætlað er að taki til starfa í haust.
„Mitt verkefni verður í raun og veru að sækja fjármagn og stuðning, vekja áhuga á þessari tegund námsleiða og koma þessum skóla á fót í haust með öllu sem til þarf, húsnæði, nánari námskrá, kennurum og síðast en ekki síst, nemendum,“ segir Helena sem gerir ráð fyrir að fyrsta kastið verði nemendur lýðháskólans um 15-20 talsins.
Ekki liggur fyrir hvar lýðháskólinn og aðstaða nemenda verður til húsa, en Helena segir að áætlað sé að það skýrist innan tveggja mánaða. Nokkurt framboð af húsnæði er á Flateyri og finna þarf út úr því hvaða hús hentar best.
Vonast er til að starfsemi lýðháskólans styrki Flateyri sem byggðarlag og að einhverjir nemendur geti hugsað sér að koma til Flateyrar með alla fjölskylduna. „Það myndi færa líf í bæði leikskóla og skóla og bæjarlífið almennt,“ segir Helena.
Runólfur Ágústsson er einn þeirra sem unnið hafa að stofnun lýðháskólans um nokkurt skeið og hann segir áhugasama þegar hafa sett sig í samband til að fá meiri upplýsingar um skólann. Það sýni að eftirspurnin sé tvímælalaust til staðar, en lýðháskólinn á Flateyri verður annar lýðháskólinn hér á landi.
Hann segir þrjátíu einstaklinga hafa unnið að því í sjálfboðastarfi að móta tvær námslínur, aðra tengda tónlistarsköpun og kvikmyndavinnslu og hina tengda umhverfi og sjálfbærni, þar sem staðbundinni þekkingu Vestfjarða verði deilt með nemendum.
„Við ætlum að kenna þarna til dæmis harðfiskverkun og annað slíkt,“ segir Runólfur og nefnir einnig til sögunnar fiskveiðar, fjallaskíðamennsku og brimbrettaiðkun.
Um 150 manns búa á Flateyri yfir vetrartímann og verkefnið nýtur mikils stuðnings í samfélaginu.
„Við erum bara full bjartsýni og setjum markið hátt,“ segir Runólfur.
Morgunblaðið 8. janúar 2018.