Vinsælustu jólalög allra tíma
Frá árdögum rokksins í Bretlandi hefur það verið mikið keppikefli þarlendra tónlistarmanna að eiga vinsælasta lagið um jólin, ár hvert. Mikið er lagt undir til að ná því markmiði og margar af frægustu og mest seldu smáskífum allra tíma hafa náð metsölu á þeim tíma.
Frægast er Do they know it‘s Christmas með Band-aid hópnum sem varð til þegar Bob Geldof kallaði saman landslið Breta í poppi, árið 1984 til að safna fé fyrir fólk sem svalt heilu hungri í Eþíópíu. Úr varð tindasmellur allra tíma en á nokkrum dögum varð lagið það söluhæsta í breskri sögu, og hefur í þrígang náð toppsætinu um jólin.
Listin bjargar mannslífum og í því tilfelli með beinum hætti. Þá náði hljómsveitin Queen þeim einstaka árangri að koma sama laginu á toppinn um jólin með tæplega tveggja áratuga millibili, rokkklassíkinni Bohemian rhapsody, sem er annað mest selda jólatopplagið.
Þessi lög eru vinsælustu „jólalögin“ í sögu breska smáskífulistans, eða öllu heldur þau sem náð hafa toppnum um jólin og/eða selst mest. Hið sígilda Wham lag Last Christmas er það sjötta vinsælasta, en það ein sem náði aldrei fyrsta sætinu, þar sem það kom út sömu vikuna og Band aid lagið en þessi tvö eru nú rúmum þremur áratugum síðar bæði með þeim allra vinsælustu sem gefin hafa verið út.
Björgvin G. Sigurðsson
Suðri - Héraðsfréttablað á Suðurlandi