A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
04.08.2016 - 10:51 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Vinnu við deiliskipulag Ólafsdals að ljúka

• Minjavernd gerir upp og endurgerir hús búnaðarskólans


Vinnu við gerð tillögu að deiliskipulagi fyrir gömlu bæjartorfuna í Ólafsdal í Gilsfirði er að ljúka. Verður hún send til afgreiðslu hjá sveitarfélaginu Dalabyggð einhvern næstu daga, að sögn Þorsteins Bergssonar, framkvæmdastjóra Minjaverndar. Þegar gengið hefur verið frá skipulagi verða teknar ákvarðanir um uppbyggingu Ólafsdalshúsanna. Þorsteinn telur víst að eitthvað verði byrjað seinnihluta næsta sumars.

Ár er síðan gerður var samningur sem fól í sér að Minjavernd tæki við eignum ríkisins í Ólafsdal til að endurbyggja gamla skólahúsið og önnur hús sem uppi standa og endurgera þau hús sem áður stóðu og tengdust skólanum.

Ólafsdalur á mikinn þátt í byltingu atvinnuhátta í sveitum landsins á seinni hluta nítjándu aldar. Þar stofnaði Torfi Bjarnason búnaðarskóla sinn árið 1880 og rak til ársins 1907. Auk skólahússins sem byggt var 1896 og enn stendur voru byggð smiðja, mjólkurhús, tóvinnuhús og fleiri byggingar.

Ólafsdalsfélagið, félag áhugamanna um verndun menningarminja í Ólafsdal, hefur haft umsjón með eignunum síðustu ár. Unnið er að viðhaldi og endurbótum og starfsemi hefur verið þar á vegum félagsins á sumrin.

 

Borað eftir heitu vatni

Minjavernd hefur notað það ár sem liðið er frá því það eignaðist mannvirki og hluta landsins til að undirbúa uppbygginguna. Auk skipulagsvinnu hafa verið boraðar rannsóknarholur til að kanna hvort líkur séu á heitu vatni.

Niðurstaðan er ekki fullljós, að sögn Þorsteins, en bendir þó til þess að unnt verði að hita húsin með notkun varmadælu.

Þorsteinn reiknar með að byrjað verði á endurbyggingu minni húsa á svæðinu. Skólahúsið verði notað á meðan.

Ætlunin er að nýta húsin fyrir menningartengda ferðaþjónustu. „Reynt verður að skapa það yfirbragð sem skóli Torfa Bjarnasonar og Guðlaugar hafði, þannig að ferðafólk geti glöggvað sig á hvaða áhrif hann hafði á land og þjóð. Jafnframt verður reynt að nýta þetta fyrir ferðaþjónustu. Skapa húsunum bæði líf og tekjur,“ segir Þorsteinn.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 3. ágúst 2016.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31