Vinna hafin við brúna á Kirkjubólsá
Eins og komið hefur ítarlega fram á Þingeyrarvefnum er nú komin ný brú á Ósá í Mosdal. Ekki er vitað til að nokkrum manni hafi dottið slíkt í hug til skamms tíma. En svona koma hlutirnir manni oft á óvart. Er Ósarbrúin hið fallegasta mannvirki, reist á mettíma. Til hamingju Mosdælir!
Og nú hafa hinir vösku brúarsveinar frá Hvammstanga fært sig um set í Dýrafjörðinn. Því nú skal byggja nýja brú á Kirkjubólsá. Það kemur að vísu engum á óvart, þar sem sú gamla var ónýt orðin. Meðf. mynd var tekin á vettvangi þar í dag. Því miður voru brúarsmiðir ekki viðlátnir og munum við því hitta þá síðar ef að líkum lætur.
Það lifnar yfir okkur þessum gömlu, sem höfum fylgst með hnignun Vestfjarða í áratugi, að sjá þó ekki sé nema eina nýbyggða brú. Hvað þá heldur tvær.