A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
05.12.2016 - 06:32 | ruv.is,Vestfirska forlagið

Vilja stofna lýðháskóla á Flateyri

Flateyri við Önundarfjörð. Ljósm.: RUV
Flateyri við Önundarfjörð. Ljósm.: RUV

Stefnt er að því að lýðháskóli taki til starfa á Flateyri haustið 2018. Um 20-30 manns vinna nú að undirbúningi skólans sem mun nýta sér mannauð og umhverfi Flateyrar.

 

Undirbúningur að stofnun lýðháskóla á Flateyri hófst á haustmánuðum, þótt hugmyndin hafi verið lengi „á floti“ segir Runólfur Ágústsson sem er í stýrihópi verkefnisins: „Þessa stundina eru um 20-30 manns að vinna í sjálfboðasarfi að þessari hugmynd og framkvæmd hennar, skilgreina námslínur, sem er búið að gera í grófum dráttum, og hvað staðurinn og umhverfið hefur uppá að bjóða.“

Námsleiðirnar verða í tónlist, kvikmyndagerð, umhverfisfræði og fjallamennsku. „Lýðháskóli vinnur út frá hugmyndafræðinni að nýta það sem staðurinn hefur uppá á að bjóða,“ segir Runólfur. Stór hópur kvikmyndagerðarfólks hefur jafnan aðsetur á Flateyri, umhverfisfræðin verður að einhverju leyti í tengslum við háskólasetur Vestfjarða, fjallamennskan mun vera í tengslum við starf björgunarsveita og nýta sér umhverfi Flateyrar og á Flateyri er öflugt tónlistarlíf.

Lýðháskólar eru mjög algengir í Skandinavíu og Runólfur telur að tugir ef ekki hundruð Íslendinga sæki lýðháskóla erlendis á hverju ári. Á Íslandi er einungis starfandi einn lýðháskóli, Lungaskólinn á Seyðisfirði, en nú er einnig í undirbúningi þriðji skólinn, íþróttalýðháskóli á Laugarvatni. Engin lög hafa verið til um lýðháskóla á Íslandi en á síðasta ári lagði Björt framtíð fram þingsályktunartillögu um að unnið yrði að löggjöf um lýðháskóla hér á landi sem var svo samþykkt í sumar. Runólfur segir að forsvarsmenn lýðháskólans á Flateyri komi nú inn í þá vinnu hjá ráðuneytinu, ásamt skólunum á Seyðisfirði og á Laugarvatni. Stefnt er að því að í lýðháskólanum á Flateyri verði 20 til 80 nemendur.

„Við teljum hugmyndina raunhæfa og sterka og stefnum að því að skólastarf geti hafist haustið 2018,“ segir Runólfur.




« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31