Vilja stækka friðlýst svæði við Dynjanda
Umhverfisstofnun telur að núverandi friðlýsingarskilmálar og markið friðlýsingar náttúruvættisins séu óskýr og ekki í samræmi við verndarmarkmið Dynjanda, því sé nauðsynlegt að taka friðslýsinguna til endurskoðunnar sem og að stækka friðlýsta svæðið.
Náttúruvætti frá 1981
Í upplýsingum frá Umhverfisstofnun segir að svæðið sé: „Að mestu ósnortið og einkennist af áhrifum jökla sem hafa sorfið landið og skilið eftir sig mikinn fjölda vatna og tjarna á Dynjandisheiði.“ Dynjandi og aðrir fossar í Dynjandisá voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1981 og var tilgangur friðlýsingarinnar að vernda fossastigann í ánni sem og auðvelda aðgengi almennings. Tillaga Umhverfisstofnunnar um stækkun og endurskoðun friðlýsta svæðisins var lögð fram á fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar í síðustu viku og mun umhverfisnefnd sveitarfélagsins tilnefna fulltrúa í samstarfshóp um undirbúning endurskoðunarinnar. Einnig hefur verið óskað eftir afstöðu og tilnefningu frá landeigendum, RARIK.
Vildu skerða streymi í Dynjanda
Hákon Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir að oftar en einu sinni hafi það komið til álita að veita vatni úr Stóra-Eyjavatni. Á síðasta ári hafnaði Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar breytingum á aðalskipulagi Ísafjarðabæjar þar sem gert var ráð fyrir að veita vatni úr Stóra-Eyjavatni að ósk Orkubús Vestfjarða. Í bókun nefndarinnar koma fram að ekki kæmi til greina að skerða náttúrulega fegurð Dynjanda með skerðingu á vatnasviði hans. Á síðasta ári var svo samþykkt verndar- og stjórnunaráætlun fyrir náttúruvættið Dynjanda sem Umhverfisstofnun vann í samstarfi við Ísafjarðarbæ og landeigendurnar, RARIK. Hákon segir að tillagan um endurskoðun friðlýsingarinnar komi í kjölfar þessarar vinnu.
Mikilvægt að stýra ferðamönnum
Umhverfisstofnun telur mikilvægt að skerpa á reglum sem gilda um náttúruvættið Dynjanda, sérstaklega í ljósi þess ferðmönnum á svæðinu hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og segir Hákon að ein leið til verndunar felist í skýrari reglum um umgengni á svæðinu sem og aðgengi eins og í tilfellum skemmtiferðaskipa sem taka í auknum mæli land í Dynjandisvogi.