Vilja skipta Vestfjörðum í fjögur samgöngusvæði
Með samþykkt Alþingis á þingsályktun um Samgönguáætlun 2007-2010 á vorþingi 2007 og viðauka hennar á vorþingi 2008 er lögð til veruleg aukning framlaga til vegamála. Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga fagnar því að hér fari saman markmið stjórnvalda og nefndarinnar. Nú megi horfa til þess að upphafleg markmið frá árinu 1997 verði að mörgu leyti uppfyllt í lok árs 2010.
Eftir standa þó stór verkefni sem verður að ljúka, til að náð verði endanlegum markmiðum. Setja verður þá kröfu að þau verkefni verði tímasett á fyrri hluta tímabils langtímaáætlunar í samgöngumálum sem lögð verður fyrir Alþingi haustið 2008. Það er að ljúka framkvæmdum á vegi með bundnu slitlagi að flugvelli í Patreksfirði. Lokaáfangi framkvæmda á Vestfjarðavegi 60 milli Flókalundar og Bjarkarlundar með þverun Kjálkafjarðar og Þorskafjarðar. Og samhliða framkvæmdum við jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verði hafist handa við framkvæmdir með áframhaldandi jarðgöngum um Dynjandisheiði.
Nefndin hefur einnig látið vinna kort sem gefur mynd af stöðu landsamgangna í lok samgönguáætlunar 2007-2018,verði farið að framangreindum markmiðum nefndarinnar og öðrum markmiðum hennar. Kortið má sjá á meðfylgjandi mynd.