Vilja bjóða Dýrafjarðargöng út í ár
Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að göng verði gerð á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á árunum 2011-2014. Ríkisstjórnin lýsti því yfir árið 2007, er hún kynnti svonefndar mótvægisaðgerðir vegna minni þorskkvóta, að flýta ætti jarðgangagerðinni þannig að hægt yrði að taka göngin í notkun 2012. Undirbúningur miðast við að hægt verði að bjóða verkið út 2009 og gengur hann að vonum. Til jarðgangagerðarinnar er varið 1 milljarði kr. í viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010 sem samþykkt var á Alþingi 29. maí 2008, 100 millj. kr. árið 2009 og 900 millj. kr. árið 2010.
Í greinargerð með ályktuninni segir: „Tilgangur framkvæmdarinnar er að tryggja góðar og öruggar samgöngur á Vestfjarðavegi, nr. 60, á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Það er skilyrði þess að aðalmarkmiðið náist, þ.e. heilsársvegasamband á milli Barðastrandarsýslna og Ísafjarðarsýslna.
Mikil snjóflóðahætta er efst á Hrafnseyrarheiði, auk mikilla snjóþyngsla. Vegurinn liggur þar í bröttum sneiðingum fyrir ofan 400 m hæðarlínuna. Önnur leið er ekki fyrir hendi og ekki talið forsvaranlegt að hafa þar vetrarveg. Augljóst er að núverandi vegur um Hrafnseyrarheiði er engan veginn viðunandi.
Aðeins ein jarðgangaleið kemur til greina og nær vegstæðið frá Mjólká í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú. Í Borgarfirði, innfirði Arnarfjarðar, verður gangamunni rétt utan við Rauðstaði í 36 m hæð. Gangamunninn í Dýrafirði verður í 67 m hæð rétt utan við Bæjará. Með framkvæmdinni styttist leiðin frá Mjólká að Dýrafjarðarbrú um 27,4 km. Nýlögn vegar og uppbygging eldri vegar verður 8,1 km auk þess verða göng 5,6 km. Framkvæmdin í heild verður 13,7 km. Kostnaður er nokkuð þekktur þar sem framkvæmdin er nánast eins og Bolungavíkurgöng og má ætla að hann verði liðlega 6 milljarðar kr. á núverandi verðlagi.
Með nýjum vegi og jarðgöngum opnast samgönguleið á milli Barðastrandasýslna og Ísafjarðarsýslna. Hér er gert ráð fyrir að vegur um Dynjandisheiði verði líka lagfærður en sú framkvæmd er á þriðja tímabili langtímaáætlunar. Vegagerðin áætlaði kostnað í ágúst 2008 ríflega 4 milljarða kr. Heildarkostnaður við bæði verkin gæti því verið nærri 11 milljarðar kr. á verðlagi nú í þessum mánuði.
Verulegur áhugi hefur verið á því að gera göng í gegnum Dynjandisheiði í stað vegagerðar. Samkvæmt mati Vegagerðarinnar frá ágúst 2008, sem áður var getið, er kostnaður við jarðgöng frá 10-17 milljörðum kr. meiri en nýr vegur. Þessi munur er svo mikill að ekki er raunhæft að pólitísk samstaða náist um svo dýra framkvæmd á næstu árum og er því lagt til í þingsályktunartillögunni að velja nýjan veg um Dynjandisheiðina. Það er mat Vegagerðarinnar að unnt sé að byggja heilsárveg yfir Dynjandisheiðina. Hann yrði í aðalatriðum á sama stað og núverandi vegur en nýr vegur og vel upp byggður. Á einstaka stað þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að leysa snjóavandamál, svo sem sérstakar fyllingar eða jafnvel yfirbyggingar. Víst er að vegurinn yrði einn af erfiðari fjallvegum landsins en engu að síður er talið að hann verði ekki erfiður ef veðurfar og snjóalög verða svipuð og síðasta áratug.
Með auknum samgöngum má vænta að samskipti á milli svæðanna verði mun meiri, bæði atvinnulega séð og félagslega. Vegalengd á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar er nú 173 km að sumri en að vetri þegar Hrafnsfjarðarheiðin er lokuð er hún 687 km. Þess má geta að ýmsar stofnanir sem eiga að þjóna Barðastrandarsýslu eru á Ísafirði en þjónusta þeirra er léleg vegna samgönguleysis.
Með framkvæmdunum mundi verða greið leið allt árið frá Ísafirði til Reykjavíkur um Vestfjarðaveg og vegalengin getur farið niður í 400 km ef öll áform um styttingar á leiðinni ganga eftir. Það er því fyrirsjáanlegt að meginþungi umferðarinnar til og frá norðanverðum Vestfjörðum verði um Vestfjarðaleið þegar sú leið opnast.
Til þess að hraða framkvæmdum og gera það kleift að ljúka þeim á þremur árum er lagt til að heimilt verði að fjármagna þær með lánsfé t.d. frá lífeyrissjóðunum og að ríkið endurgreiði lánið á nokkrum tíma, allt að 25 árum. Með þessu móti vinnst að samgöngubæturnar dragast ekki íbúunum til hagsbóta og að lífeyrissjóðirnir fá trygga og örugga ávöxtun á sparnað sjóðsfélaga."