Vilja auka aflaheimildir í strandveiðum
Stjórn Landssambands smábátaeigenda hefur farið þess á leitir við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra að aflaviðmiðun til strandveiða verði hækkuð þannig ekki komi til stöðvunar veiða.
„Strandveiðar 2017 hafa ekki uppfyllt þær væntingar sem þátttakendur gerðu til þeirra,“ segir í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar LS fyrir helgi. „Þrátt fyrir að ellefu prósent færri stundi veiðarnar í ár en í fyrra, fækkun um 72 báta, og því meira sem kemur í hlut hvers og eins er aflaverðmæti nú fjórðungi lægra en í fyrra. Hrun fiskverðs og ónægar veiðiheimildir eru helstu orsakavaldarnir.“
Í ályktuninni bendir stjórnin á að vegna vinnustöðvunar á fiskveiðiárinu verður þorskafli nokkuð undir því sem aflaregla gerir ráð fyrir að veitt verði, 244 þúsund tonn. „Samkvæmt tölum Fiskistofu var þorskafli á fiskveiðiárinu þann 21. júlí 212 þúsund tonn, sem er um 17 þúsund tonnum minna en á sama tíma á fiskveiðiárinu 2015/2016,“ segir þar.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, segir ekkert því til fyrirstöðu að ráðherra hækki aflaviðmiðunina. „Þetta er ekkert sem skaðar þorskstofninn og það eru til nægar heimildir ráðherra til að gera þetta,“ segir Örn.