Vildi ekki missa kvörtunarréttinn
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir er Ísfirðingur búsettur á Akureyri, en hún mun taka sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi þar sem flokkurinn bætti við sig manni og náði tveimur inn á þing. Albertína er ekki alls ókunnug stjórnmálum, en hún sat í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á kjörtímabilinu 2010 til 2014 og samhliða því var hún formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.
„Ég hef verið að stýra félagi sem heitir Eimur síðasta árið eða svo, verið að vinna með nýsköpun og aukna verðmætasköpun í tengslum við nýtingu á jarðhita. Það er mjög skemmtilegt starf,“ segir Albertína, en utan vinnu segist hún hafa gaman að því að elda góðan mat og eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu, auk þess sem hún sé píanóleikari.
En hvers vegna ákvað hún að snúa sér að landspólitík?
„Það er mjög góð spurning. Það var nú eiginlega bara þannig að mér var boðið sæti á listanum og maður er svo gjarn á að sitja heima og nöldra yfir því að hlutir séu svona eða hinsegin og ég áttaði mig á því að þarna væri raunverulegt tækifæri til að leggja mitt af mörkum við að reyna að breyta hlutunum,“ segir Albertína, og að hún hafi raunar orðað það þannig við vini sína að hún vildi ekki missa kvörtunarréttinn. „Ef maður segir nei við svona tækifæri þá má maður einhvern veginn ekki lengur kvarta af því maður var þá ekki tilbúinn til þess að raunverulega gera eitthvað.“
Byggðamál, nýsköpun og loftslagsmál
Aðspurð segir hún það leggjast vel í sig að setjast á þing. „Það er ennþá svolítið óraunverulegt að þetta hafi farið svona en ég er gríðarlega spennt og mun leggja mig alla fram í starfi fyrir kjördæmið og landið allt.“
„Ég hef verið að leggja áherslu á byggðamálin, enda er ég menntuð félagslandfræðingur og hef svolítið verið að sérhæfa mig í byggðamálum. Byggðamál, uppbygging og styrking byggða landsins eru mér ofarlega í huga,“ segir Albertína og að þar sé hún að horfa bæði til innviða sem og nýsköpunar og ekki síður loftslagsmála. „Ég vil sjá bætta og aukna verðmætasköpun úr alls kyns afurðum sem við erum ekki að nota í dag, sem tengist kannski líka starfinu sem ég hef verið í. Ég held það séu gríðarlega mikil tækifæri fyrir Ísland allt hvað það varðar. Við höfum tækifæri til þess að skara fram úr og eigum að gera það með alla okkar grænu orku.“