02.12.2009 - 21:44 | BB.is
Vilborg tilnefnd til bókmenntaverðlauna
Auður, skáldsaga Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu, er ein fimm bóka sem tilnefndar eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta. Er þetta í annað sinn sem bók eftir Vilborgu er tilnefnd til verðlaunanna því skáldsaga hennar Hrafninn var tilnefnd árið 2005. Í kynningu útgefanda á Auði segir: „Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands, en hingað til lands kom hún ekki fyrr en á efri árum. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi, háðu jafnvel blóðuga bardaga innbyrðis."