Víkingatíminn lifnar við á Vestfjörðum
Borgný Gunnarsdóttir og eiginmaður hennar Þórir Örn Guðmundsson eru um þessar mundir að opna nýjan stað á Þingeyri í Dýrafirði í anda víkingatímans. Gestir fá meðal annars að baka brauð yfir opnum eldi og klæða sig upp í víkingaklæði en um er að ræða einstaka upplifun fyrir þá sem hafa áhuga.
Við ætlum okkur að leyfa fólki að upplifa landnámstímabilið hér hjá okkur þar sem við höfum innréttað 85 fermetra móttökusal. Við höfum hugsað okkur að taka á móti litlum hópum,“ segir Borgný Gunnarsdóttir en hún og eiginmaður hennar, Þórir Örn Guðmundsson, sem eru um þessar mundir að opna nýjan stað í víkingastíl á Þingeyri á Vestfjarðarkjálkanum sem hefur fengið nafnið Skálinn. Þar gefst fólki einstakt tækifæri til þess að komast í kynni við aðstæður og lifnaðarhætti forfeðra og -mæðra Íslendinga á landnámstímanum, auk þess sem það fær að taka þátt í ýmsum athöfnum sem svipar til þess sem forfeður okkar tókust á við á sínum tíma.
„Hér fær fólk að baka sér víkingabrauð á opnum eldi, það fær að klæða sig upp á í fornklæði ef það vill, hér er allur fatnaður til þess. Það fær einnig að skoða handverk og ýmsa muni sem hafa verið gerðir í tengslum við þennan tíma. Við gerðum borð og bekki þar sem fólk getur sest og fengið að drekka úr víkingakrúsum og einnig bjóðum við fólki upp á að fá sér kaffisopa úr slíkum krúsum,“ segir Borgný.
Langaði að gera eitthvað meira
Borgný segir að Skálinn sé glænýr, verið sé að hleypa þessu af stokkunum um þessar mundir. „Við erum svolítið að horfa til farþega skemmtiferðaskipanna, ætlum okkur að byrja þar. Við erum að koma okkur inn á þann markað í samstarfi við rútufyrirtæki sem heitir Fantastic Fjords.“ Allt að 100 skemmtiferðaskip munu leggjast að bryggjum Ísafjarðar og nágrannabæjar þetta sumarið og því ljóst að Skálinn er kjörin viðbót við allt sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Að auki eru bundnar vonir við að Skálinn verði einnig mikil lyftistöng fyrir ferðamannaiðnaðinn á Vestfjörðum. Þegar Borgný er innt eftir því hvernig hugmyndin hafi kviknað, segir hún að áhuginn á landnámstímanum sé ekki nýr af nálinni á Þingeyri.
„Hér hefur verið starfrækt Víkingafélag í örugglega ein 15 ár“ og á hún þá við félagið Víkingar Vestfjarða. „Allt handverk og allt í kringum þennan tíma er svo heillandi þannig að við erum búin að vera í því, hjónakornin og fjölskyldan, í svolítinn tíma. Svo hefur það bara blundað í okkur lengi að gera eitthvað meira.“
Skálinn er þó ekki eina tengingin við landnámstímann á Vestfjörðum en þar er rík hefð fyrir áhuga á víkingum og ýmsu tengdu þeim.
„Hér var byggt upp svolítið skemmtilegt svæði í fjöruborðinu, í Oddanum, í víkingastíl. Þetta er útiaðstaða sem tekur í kringum 300 manns, og þar er hægt að vera með varðeld og fleira. Þetta er aðstaða sem Víkingafélagið byggði upp á sínum tíma og í kringum það er maður búinn að fá þennan brennandi áhuga á þessu tímabili. Ég hef til dæmis verið að gera mikið af handverki í kringum þennan tíma,“ segir Borgný og bætir við að út frá þessum áhuga hafi hugmyndin að Skálanum kviknað. Íslendingar eru þekktir fyrir stoltið yfir víkingaarfleið sinni og Skálinn því líklegur til þess að auka enn á áhuga landans fyrir landnámstímanum.
Gott myndastopp með meiru
Undirbúningur fyrir Skálann hófst í vetur og er kominn á það stig segir Borgný að þau geti farið að taka á móti hópum. „Fyrir gesti er þetta bæði upplifun og viss lífsreynsla að fá að taka þátt í þessu, fá að kynnast þessum tíma með því að prófa, sjá og smakka. Það felst mikil upplifun einmitt í því að komast í gírinn og upplifa sig eins og á landnámstímanum. Svo leggjum við einnig upp með það að þegar gestir eru komnir á staðinn geta þeir látið mynda sig í allskonar búningum. Þetta er því gott myndastopp með meiru.“ Vonast Borgný til að þetta heilli fólk sem eigi leið hjá og dragi þannig að sér fjölda ferðamanna, en oft hefur verið talað um að auka þurfi flæði ferðamanna til annarra landshluta en bara Suðurlandsins.
„Við ætlum að reyna að taka á móti hópum því það er öðruvísi stemning í að upplifa þetta saman frekar en einn og einn. Við erum ekki að tala um stóra hópa, kannski upp í 20 manns, það er þægilegur fjöldi. Þá verður þetta persónulegra án þess að það sé yfirdrifið mikið í gangi í einu. En að sjálfsögðu eru allir velkomnir til okkar.“
Spurð hvernig megi nálgast upplýsingar um Skálann bendir Borgný á Facebook-síðu staðarins sem má finna undir heitinu Skálinn. „Ég er búin að setja dálítið af upplýsingum bæði inn á Facebook-síðuna okkar og líka Instagram þar sem fólk getur séð myndir af þessu.“ Fyrir fólk sem hyggst leggja land undir fót í sumar og ferðast innanlands er því ekki úr vegi að bregða sér á Þingeyri og upplifa alvöru víkingastemningu. Tekið verður vel á móti öllum sem leggja leið sína í Skálann, mikið er lagt upp úr því að gera upplifun gesta einstaka, hvort sem um er að ræða fjölskyldur, pör eða bara alla þá sem hafa brennandi áhuga á landnámstímanum, víkingum og öllu sem því tengist.
Morgunblaðið mánudagurinn 10. júlí 2017.