23.06.2011 - 20:24 | JÓH
Víkingaskipið Vésteinn á Bíldudals grænum
Víkingaskipið Vésteinn var sjósett í Dýrafirði í gærkvöldi í blíðskaparveðri. Víkingaskipið siglir til Bíldudals snemma í fyrramálið en um helgina fer þar fram bæjarhátíðin Bíldudals grænar. Þetta er í fyrsta sinn sem Víkingaskipið siglir út fyrir Dýrafjörðinn og er áætlað að ferðalagið taki um 5-6 tíma. Valdimar Elíasson, skipstjóri, reiknar með að um 6-8 manns muni fara með Víkingaskipinu og verður ýmist siglt, róið eða notast við vélarafl. Ef veður leyfir mun Vésteinn koma heim á sunnudagskvöld.