Vika 37
Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í viku 37 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Í viku 37 voru grafnir 90,1 m í göngunum.
Lengd ganganna í lok viku 37 var 3.579,9 m sem er 67,5% af heildarlengd ganganna. Í lok vikunnar voru 105,3 m í hábunguna í göngunum.
Þunna rauða setlagið sem var að koma í ljós í lok síðustu viku reis upp eftir sniðinu eftir því sem lengra var farið og undir því er ágætis basalt. Farið var í gegnum berggang sem kvíslaðist stundum í tvær greinar.
Efnið úr göngunum var keyrt í fláafleyga næst munnanum. Unnið var við skeringar í syðsta enda vegarins.
Unnið var alla vikuna við járnabindingar á syðri stöpli Mjólkárbrúar.
Í Dýrafirði var haldið áfram með vegfyllingar og við að koma upp aðstöðu s.s. búðum og verkstæðum.
Unnið var við bergstyrkingar í forskeringunni og er búið að merkja fyrir munnanum.
Á meðfylgjandi myndum má sjá skeringu suður af Mjólkárvirkjun og mynd frá verktakanum sem sýnir staðsetningu munnans í Dýrafirði.