Við bræðurnir og Gaui: Hrós dagsins fær Kristján Gunnarsson, vélvirkjameistari á Þingeyri
Kristján Gunnarsson frá Hofi í Dýrafirði tók við arfleifð þeirra smiðjufeðga, Guðmundar og Matthíasar, árið 1995, eftir fráfall Matthíasar. Fyrirtæki þeirra Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar og co hf á Þingeyri, sem var landsfrægt og einnig þekkt langt út fyrir landsteinana, hafði þá starfað í rúm 80 ár. Kristján hefur rekið fyrirtæki sitt, Véla og bílaþjónustu Kristjáns ehf, frá þeim tíma í smiðjuhúsunum á Þingeyri. Kristján var einn af smiðjudrengjunum sem gerðu garðinn frægan um land allt. Smiðjan á Þingeyri er einstök á heimsvísu. Þær eru ekki margar þjóðirnar, ef nokkrar, sem eiga slíka gersemi.
Skemmst er frá að segja, að Kristján frá Hofi hefur farið með smiðju þeirra feðga á Þingeyri eins og sjáöldur augna sinna. Þar er allt með ummerkjum. Ennþá eru gömlu reimdrifnu vélarnar frá fyrstu tíð í gangi. Og annað eftir því. Með Kristjáni vinnur sonur hans, Róbert Daníel. Þó þeir séu yfirleitt bara tveir að verki, feðgarnir, þá er enn steyptur málmur í málmsmiðjunni, eldsmíði upp á fornan máta er enn viðhöfð og jafnvel haldin námskeið í þeim fræðum. Bátaviðgerðir, bílaviðgerðir og nefndu það bara. Stórmerkileg þjónusta við samfélagið og minnir á forna frægð.
Eiginkona Kristjáns er sómakonan Alda Sigurveig Sigurðardóttir og eiga þau 3 börn.
Við bræðurnir og Gaui veitum Kristjáni Gunnarssyni, vélvirkjameistara á Þingeyri, hrós dagsins með heiðri og sóma.