Vesturleiðin verður alltaf styttri
Núverandi sumarvegur sem flestir aka um Ísafjarðardjúp, yfir Eyrarfjall og um Þorskafjarðarheiði er 440 kílómetra löng til Reykjavíkur, en um Vestfjarðaveg 456 kílómetrar. Á veturna þegar farið er um Steingrímsfjarðarheiði og Strandasýslu er akvegurinn milli Ísafjarðar og Reykjavíkur 495 kílómetrar. Þegar vegur um Arnkötludal verður kominn í gagnið á næsta ári, styttist sú leið í 454 kílómetra. Hún verður væntanlega ekki fær fyrr en eftir ár, þar sem framkvæmdir hafa dregist frá því sem ætlað var. Jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar eiga að vera tilbúin 2012 og nýr vegur í Gufudalssveit og Þorskafirði væntalega árinu fyrr. Þá mun vesturleiðin styttast í 404 kílómetra. Þetta kom fram í erindi Kristjáns L. Möller samgönguráðherra á þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga fyrr í mánuðinum.