Vesturgatan- sunnudaginn 19. júlí 2015
Vesturgatan var fyrst hlaupin árið 2006 og verður hlaupin í tíunda sinn sunnudaginn 19. júli 2015. 2011 var í fyrsta sinn boðið upp á 45 km Vesturgötu og verður það gert aftur í ár. Í hverri vegalengd er keppt í karla og kvennaflokki en í ár verður einnig keppt í aldursflokkunum, 16-39 ára og 40 ára og eldri.
Vegleg verðlaun verða einnig veitt fyrstu þremur í karla og kvennaflokki, óháð aldursflokkum
Stutt leiðarlýsing
Vegalendirnar í ár eru eru því þrjár:
- 10 km („hálf“ Vesturgata) Start klukkan 12:45
- 24 km (heil Vesturgata) Start klukkan 11:00
- 45 km (tvöföld Vesturgata) Start klukkan 8:00
Hlaupið er á Skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem gjarnan er kenndur við Sléttanes eða Svalvoga, stundum kallaður Fjallaskagi en kannski oftast nefndur Vestfirsku alparnir. Fyrir skagann er enginn þjóðvegur en þar er stórmerkilegur og löngu landsþekktur ýtuvegur, einkaframtak Elísar Kjaran á áttunda áratugnum.
Rásmark í tvöfaldri Vesturgötu er á Þingeyri. Þaðan verður hlaupið inn Kirkjubólsdal og upp á Álftamýrarheiði. Efsta brún hennar er í 544 m hæð en háheiðin er þó ekki nema nokkrar bíllengdir að lengd. Lækkun hefst því strax aftur og liggur leiðin niður Fossdal að sjó í Arnarfirði og stuttan spöl út að næsta dal, Stapadal. Fyrir neðan Stapadalsbæinn er rásmark í heilli Vesturgötu. Þaðan liggur leið hlaupara úr báðum þessum vegalengdum eftir ýtuvegi Elísar Kjarans út í Lokinhamradal og áfram fyrir Sléttanes að Svalvogum. Nálægt Svalvogum er rásmark í hálfri Vesturgötu. Þaðan er hlaupið að Dýrafjarðarmynni, eftir syllunni í Hrafnholunum inn í Keldudal og þaðan áfram inn Dýrafjörinn að Sveinseyri. Þar er endamark í öllum hlaupunum. Hlaupið er niður brekku í lokin þannig að allir koma í mark af mikilli reisn.
Athugið að í ár, líkt og undanfarin 2 ár, verður styttri vegalengdin, hálf Vesturgata, stytt örlítið frá því sem verið hefur. Ræst verður við sjálfan Svalvogavitann, þannig að vegalengdinn verður rétt um 10 km (nákvæm mæling verður framkvæmd um leið og vegurinn opnast í vor). Þessi breyting á sér tvær skýringar. Sú fyrri er sú að á gamla rásstaðnum er símasamband hér um bil ekkert, sem er bagalegt því ræsir þarf að vera í beinu sambandi við tímaverði í markinu á Sveinseyri. Hefur sambandsleysið ítrekað valdið töfum á ræsingu, en þetta vandamál ætti að vera úr sögunni með þessum flutningi. Í öðru lagi er erfitt fyrir rútur, sem flytja keppendur á staðinn, að snúa og athafna sig á gamla rássvæðinu, en við vitann er mun betra pláss til slíkra athafna.
Umsjón hlaupsins er í höndum stjórnar Hlaupahátíðarinnar og félaga í Höfrungi, íþróttafélagsins á Þingeyri. Hlaupstjóri er Sigmundur Þórðarson.
Grillið á Víkingasvæðinu
Hlauparar í Vesturgötunni eru hvattir til að nýta sér útigrillið á hinu rómaða Víkingasvæði Dýrfirðinga eftir hlaupið. Þar hefur gjarnan myndast góð stemning meðal hlaupara og áhangenda. Víkingasvæðið er staðsett yst á Þingeyrinni, við Sundhöllina, tjaldstæðið og útiblakvöllinn.
Myndasöfn
- Myndir Bjarna Þorbjörnssonar af hlaupaleiðinni í heilli og hálfri VG
- Myndir Guðmundar Ágústssonar frá 2010
- Myndir Guðmundar Ágústssonar frá 2009
- Skoðið einnig myndir hjólreiðamanna hér á vefnum sem sýna sömu leið
Annar fróðleikur
- Myndir, fróðleikur og frásögn Stefáns Gíslasonar af hlaupinu árið 2009
- Árbók Ferðafélags Íslands árið 2000. Frábær lýsing og góðar myndir af svæðinu.