Vestfjarðarvíkingurinn 2019
Aflraunakeppnin Vestfjarðarvíkingurinn 2019 fór fram um helgina í veðurblíðu og er það í 27. sinn sem keppnin er haldin. Keppt var á Hólmavík, Djúpavík, Norðurfirði, Súðavík og lauk keppninni á Þingeyri á laugardaginn síðastliðinn. Ari Gunnarsson sigraði keppnina eftir að hafa tekið skarpa forystu, og er það í fimmta sinn sem hann hlýtur titilinn Vestfjarðarvíkingurinn. Keppt var í hefðbundnum aflraunagreinum Víkingsins s.s. kútakasti, að ýta bíl, og tunnuhleðslu.
Íþróttafélagið Höfrungur tók þátt í skipulagi keppninnar á Þingeyri líkt og undanfarin ár, en þar var að þessu sinni keppt í þremur greinum, steinatöku upp á öxl og bændagöngu sem fram fóru á Víkingasvæðinu, og tunnuhleðslu sem fram fór í sundlaug Þingeyrar. Steinarnir sem notaðir eru í keppninni eru allan ársins hring á Víkingasvæðinu og geta gestir og gangandi spreytt sig á aflrauninni. Þess skal þó geta að það er ekki á færi allra og best er að fara að öllu með gát.