Vestfirskur viljastyrkur, einbeitni og þrjóska!
Alveg eru þeir makalausir þessir blessuðu Vestfirðingar. Sjáið til dæmis ofurhlauparann hann Gunnlaug Júlíusson frá Móbergi á Rauðasandi.
Í bók sinni, Að sigra sjálfan sig (sem Vestfirska forlagið gaf út) , segir hann frá því að hann hafi byrjað sinn hlaupaferil 42 ára gamall, vel yfir 90 kíló að þyngd, reykti eins og strompur og skvetti í sig brennivíni öðru hvoru.
Fyrir tilviljun byrjaði hann að æfa hlaup og er nú í hópi þekktustu langhlaupara í heimi hér. Fyrir þann tíma datt honum síst í hug að hann ætti eftir að leggja fyrir sig íþróttir að ekki sé nú talað um langhlaup og verða afreksmaður á heimsmælikvarða. Gunnlaugur segir að baráttan að því marki hafi ekki alltaf verið auðveld. Bætir svo við að fáir sigrar séu sætari en þeir sem maður vinnur yfir sjálfum sér.