A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
26.04.2017 - 17:55 | Vestfirska forlagið,Elfar Logi Hannesson,Björn Ingi Bjarnason,bb.is

Vestfirskir listamenn - Skúli Kristján Halldórsson

Skúli Halldórsson (1914 - 2004).
Skúli Halldórsson (1914 - 2004).
« 1 af 2 »

Listin gengur oft í ættir og svo læra líka börnin það sem fyrir þeim er haft. Þó húsfreyjan Unnur Thoroddsen starfaði ekki í listinni þá spilaði hún mikið á píanó. Þegar auð stund gafst settist hún við klaverið og á sömu stund skondraðist Skúli sonur hennar við fætur mömmu og lagði eyrað við hljóðfærið. Hér erum við sannarlega að tala um músíkeyra. Það hafði okkar vestfirski listamaður en hann heitir Skúli Halldórsson.

Á unga aldri var hann búinn að ákveða að hann ætlaði að verða píanóleikari og varð gott betur en það því hann varð einnig tónskáld. Fæddur og uppalinn á Flateyri og til að styrkja ættarlistakenninguna skal þess strax getið að langafi hans var skáldið Jón Thoroddsen og amma Skúla er þuludrottningin Theó- dóra Thoroddsen. Ekki má svo gleyma Muggi frænda. Seinna átti Skúli eftir að semja músík við verk þessarar einstöku lista- þrenningar.

Engum sögum fer hinsvegar af listagáfum föðursins Halldórs Georgs Stefánssonar er starfaði sem læknir á Flateyri. Hinsvegar fara alltof margar vínsögur af doktornum enda fór það svo að hann var settur úr embætti. Fjölskyldan tók sig upp og flutti á Ísafjörð hvar húsbóndinn fékkst við læknisstörf.

Á Ísafirði var meðal kennara Skúla alþýðulistamaðurinn Jón Hróbjartsson. Hann var eins og allir listamenn í mörgum störfum, var með meiru stjórnandi barnakórs og undirleikari um leið. Þá var nú gott að hafa lítið músíkséní í hópnum eins og hann Skúla sem ósjaldan var settur við orgelið meðan stjórnandinn reyndi að leiða krakkaskarann á réttu tónana.

Fjölskyldan fluttist loks til Reykjavíkur og var Skúli þá ósjaldan hjá Theódóru ömmu í Vonarstræti 12 enda var þar jafnan fjölmenni og mikill erill jafnvel bara eins og á fjörugustu listamannaknæpu. Skúli settist á skólabekk í Ingimarsskóla hvar Þórbergur Þórðarson var meðal kennara hans og þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands. Það var einmitt á Verslunarskólaskemmtun í Iðnó 1932 sem Skúli kom fyrst fram opinberlega sem píanóleikari. Hann var þegar byrjaður að semja músík á þessum árum m.a. Jójó-valsinn og voru nóturnar gefnar út sérstaklega og seldust vel. Sumir vilja meina að þar hafi skipt mestu að það var mynd af hinu unga tónskáldi á forsíðunni. Þetta var aðeins upphafið og síðan fylgdu fjölmargar útgáfur laga hans á prenti.

Árið 1941 kom út sönglagahefti Skúla hvar öll lögin voru við ljóð langafa, Jóns Thoroddsens, þar á meðal Smaladrengurinn eitt hans vinsælasta lag. Áform Skúla um að leggja músíkina fyrir sig höfðu hinsvegar ekkert breyst en það er jú alltaf gott að hafa eitthvað með listinni. Þannig var það hjá Skúla sem starfaði lengst af á kontórnum hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Leiðin lá loks í Tónlistarskóla Reykjavíkur hvar hann stúderaði bæði píanóleik og tónsmíðar. Skúli var gífurlega afkastamikið tónskáld ekki síst þar sem hann stundaði aðra vinnu með listinni. Samdi hann vel á annað hundrað tónverka bæði hljómsveitar- og kammerverk sem og fjöldamörg sönglög. Mörg verkanna hafa komið út í nótnaheftum, hljómplötum og geisladiskum.

Eins og áður var getið var hann iðinn við að semja músík við verk eigin ættar. Hann leitaði þó einnig fanga útfyrir ættina og samdi m.a. músík við ljóð Vilhjálms frá Skáholti en þeir voru jafnframt góðir mátar, Einars Benediktssonar, Jóhannesar úr Kötlum og hins vestfirska Steins Steinarrs. Skúli var einnig undirleikari hjá mörgum stórsöngvaranum mætti þar nefna Kristinn Hallsson og Sigurð Ólafsson.

Hann var og mjög virkur í félagsstarfi músíkskálda hér á landi árið 1950 settist hann í stjórn bæði Tónskáldafélags Íslands og hins umdeilda STEFS. Stórmúsík skáldið Jón Leifs barðist eins og riddari fyrir hönd sinna kollega og var Skúli hans bandamaður. Enda tók hann við stjórnartaumunum þar á bæ eftir að Jón hélt á önnur svið. Alls starfaði hann í um fjóra ártugi í stjórnum þessara félaga auk þess átti hann sæti í stjórn Bandalagi íslenskra listamanna í áratug.

Þekktasta lag Skúla er án efa valsinn Augun þín sem hann samdi til lífsförunautar síns Steinunnar Guðnýjar Magnúsdóttur. Ástæðan er sú að 16 árum eftir að hann samdi valsinn sló franska lagið Dómínó í gegn um heim allan og þótti Skúla lagið mjög keimlíkt sínu. Hann leitaði til STEFS með málið sem hafði svo aftur samband við samskonar félag þeirra Frakka. Utanaðkomandi aðilar tóku málið fyrir og komust að þeirri niðurstöðu að bæði verkin væru sjálfstæð og því hefði hinn franski ekki nappað laginu frá kollega sínum á Íslandi.

Málið vakti svo mikla athygli hér á landi að úr varð sérstök gamanvísa við hið franska lag, Dómínó, er Brynjólfur Jóhannesson, leikari, flutti með bravúr og söng þá m.a.:
Domino, Domino,
finnst mér afi þinn íslenskur vera.
Um þig stendur styr,
sextán árum fyr
Skúli samdi þig og þó
Þykistu vera frönsk, Dominó?

Rétt er að benda áhugasömum lesendum á hina hressilegu og mjög svo opinskáu ævisögu Skúla, Lífsins dóminio, 1992, sem er einmitt aðalheimild þessa greinakorns.

 

Elfar Logi Hannesson

 

BB fréttablað á Vestfjörðum

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31