A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
22.10.2017 - 10:08 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Elfar Logi Hannesson,Blaðið - Vestfirðir,Björn Ingi Bjarnason

Vestfirskir listamenn - Jakobína Sigurðardóttir

Jakobína Sigurðardóttir F. 8. júlí 1918 Hælavík Hornströndum. D. 29. janúar 1994 Akureyri. Öndvegisverk: Dægurvísa, 1965,
Jakobína Sigurðardóttir F. 8. júlí 1918 Hælavík Hornströndum. D. 29. janúar 1994 Akureyri. Öndvegisverk: Dægurvísa, 1965,
Ef þú átt eftir að lesa þessa bók, þá verður þú að hafa í huga að ég ætlaði að skrifa Góða Bók. Þannig hefst síðasta skáldsaga vestfirsku skáldkonunnar Jakobínu Sigurðardóttur, Í sama klefa. Það er varla hægt að byrja sögu betur en þetta. Strax á fyrstu setningu er athygli lesandans vakin. Þetta var einmitt einn af mörgum hæfileikum skáldkonunnar að grípa lesandann strax á fyrstu orðum. Jakobína Sigurðardóttir bóndastúlkan frá Hælavík er sannarlega einn af skáldsnillingum síðustu aldar hér á landi. En hver var hún?

Bókauppeldi

Fædd og uppalin í hinni afskekktu Hælavík á Hornströndum 18. júlí 1918. Frumburður sinna foreldra en síðan bættust ein 12 stykki við þar á meðal annað skáld nefnilega Fríða Á. Sigurðardóttir.

Bókauppeldi var enda gott á æskuheimilinu bæði var aðgangur að bókverkum ágætur sem og miklar umræður um bækur. Enda er ekki nóg að lesa heldur þarf einnig að ræða verkin. Oft var talsverður hiti í umræðunum og sitt sýndist hverjum. Verk Þorsteins Erlingssonar voru þó almennt mest í metum enda tók hann allajafna málstað litla mannsins sem sannarlega var víða á Hornströndum.

Æskan þá og nú sækir í menntun og þá liggur leiðin oftar en ekki suður á mölina. Árið 1935, þegar Jakobína er 17 ára flytur hún suður til að afla sér menntunnar. En það var ekki auðvelt fyrir fátæka bóndadóttur frá hinum nyrstu Hornströndum og var því skólagangan styttri en lagt var upp með. Rúmum 10 árum síðar, árið 1949 flutti hún allaleið í Mývatnssveit og tók þá tók upp búskap við eiginmann sinn Þorgrím Starra Björgvinsson að Garði 2. Börn þeirra urðu fjögur, þrjár stúlkur og einn drengur. Að Garði bjó Jakobína allt í æviloka en hún andaðist á Akureyri 29. janúar 1994.

Skáldin mega ekki standa of nærri fjallinu

Þó mörg væru verkin hjá húsfreyjunni og bóndanum Jakobínu sendi hún frá sér 10 einstök bókverk. Fjórar skáldsögur hvar Dægurvísa er líklega þeirra þekktust, þrjú smásagnasöfn, barnabók sem er nú samt ekki alltaf flokkuð sem slík enda er um þrælpólitískt verk að ræða, kvæðabók og loks endurminningarbók. Hvernig fann hún tíma til að rita öll þessi snildarverk? Jú, á nóttunni. Þegar börnin voru komin í háttinn þá datt þakið af húsinu og ró komst á. Þá var tími skáldkonunnar og líklega oft seint gengið til náða sérlega þegar skáldaandinn tók völdin. Jakobína sagði í viðtali að til þess að geta skrifað bækur þyrfti ritari að hafa farið og dvalið víða. Eða einsog hún orðaði svo listilega að maður: Standi ekki of nærri fjallinu. 

Fyrsta bók Jakobínu var hið beitta og pólitíska ævintýri Sagan af Snæ- björtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur og kom út 1959. Myndskreytir bókarinnar er hin einstaka listakona Barbara Árnason en einhverra hluta vegna hefur alltof hljótt farið um þetta lista ævintýri. Til gamans má geta þess að ritara hefur ávallt dreymt um að sjá ævintýrið sem balletverk. Kannski einhver láti þann draum verða að veruleika því ritari er með taktlausustu mönnum. Strax árið eftir, 1960, kemur út Kvæði en það var einmitt í ljóðinu sem skáldkonan Jakobína fæddist fyrir alvöru. Bókin var aukin og endurútgefin 1983. Í ljóðum sínum yrkir hún um æskuna, erfi og afmæliskvæði fylgja með og síðast en ekki síst flugbeitt ádeilukvæði og þá ekki helst um hersetuna hér á fróni. Fjögur ár liðu þar til næsta bókverk kom frá Jakobínu en það var smásagnasafnið Púnktur á skökkum stað, 1964, og með því verki vakti hún fyrst verulega athygli í hinum íslenska skáldaheimi.

Alls ritaði Jakobína 23 smásögur er birtust í 3 söfnum. Auk Púnktins, Sjö vindur grá- ar, 1970, og Vegurinn upp á fjallið, 1990. Smásögur hennar eru um margt einstakar og sumar eru hreint eintal, samtal einnar persónu. Hún hafði einstakt lag á að skapa persónur sem birtast ljóslifandi fyrir lesandanum. Það er mikil list.

Fyrsta skáldsaga Jakobínu er Dægurvísa, 1967, sem gerist á einum degi einsog titillinn gefur til kynna. Ekki bara það heldur gerist hún í sama húsinu og aðalpersónurnar eru hvorki fleiri né færri en 10. Sumar þeirra búa í húsinu aðrar eru gestir er þangað koma. Dægurvísa flokkast þannig til hópsagna þar sem aðalpersónur eru svo margar. Næsta skáldsaga hennar Snaran, 1968, var hinsvegar af allt öðrum toga. Þar setur höfundur sig í spástellingar því sagan gjörist 20 árum eftir að hún er rituð er sumsé framtíðarsaga. Þræl pólitísk ádeila og vilja margir meina að margt hafi þar ræst.

Fjórða og síðasta skáldsaga hennar er hin tragíkómíska Í sama klefa. Hvar rithöfundurinn reynir að fást við að rita Góða bók sem falli að hugum lesenda sem bókmenntapáfa. Eða það sem þarf til að fá ávísun frá launasjóði rithöfunda. Sannarlega fast skotið að hinum umdeildu listamannalaunum.

Síðasta bókverk Jakobínu er skáldævisagan Í barndómi, 1994.

Elfar Logi Hannesson
Aðalheimild: jakobinasigurdardottir.wordpress.com



« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31