Vestfirska forlagið vökvar víða upprunaþrá
Vestfirska forlagið hefur staðið að metnaðarfullri bókaútgáfu í nær fjórðung aldar og gefið út rúmlega 300 titla.
Bækurnar hafa notið vinsælda og virðingar á heimaslóð vestra og ekki síður meðal hinna fjölmörgu brottfluttu Vestfirðinga sem dreifast víða um landið.
Einn þeirra er Önfirðingurinn af Ingjaldssandi , Ásgeir Ragnarsson sem býr ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Þórisdóttur á Selfossi.
Ásgeir og Halldóra litu við að Ránargrund á Eyrarbakka í þjóðhátíðarheimsókn en þar má segja að sé sendiráð Vestfirska forlagsins á Suðurlandsundirlendi.
Ásgeir er mjög vel að sér um vestfirskan fróðleik og menningarsögu. Ýmislegt var rifjað upp og í tilefni 17. júní, fæðingardags Jóns Sigurðssonar, voru sérstaklega rifjaðar upp rætur hans til Holtspresta í Önundarfirði.
Ásgeir og frú voru kvödd með virktum við lok heimsóknar og fékk hann vestfirskan sögu- og menningarglaðning sem var ein af bókum Vestfirska forlagsins í flokknum vinsæla -Frá Bjargtöngum að Djúpi-