Þjóðsögur og gamanmál að vestan verða sennilega fyrstu rafbækurnar sem koma frá Vestfjörðum innan skamms.
Guðrún Steinþórsdóttir á Brekku verður deildarstjóri hinnar nýju rafbókadeildar.
Vestfirska forlagið á Brekku í Dýrafirði hefur nú ákveðið að stofna sérstaka rafbókadeild. Er fyrirhugað að setja sem flestar af eldri bókum forlagsins á rafbækur til að þjónusta þá lesendur sem þess óska og vilja fylgjast með þróuninni á því sviði. Eins og mörgum er kunnugt er mjög einfalt að tileinka sér rafbókatæknina. Menn kaupa sér lesara, sem yfirleitt kosta á bilinu 25-30 þúsund krónur og síðan rafbækur að vild, en verð á þeim er misjafnt, allt frá 4000- 5000 krónum niður í 800- 900 krónur og jafnvel minna. Öll viðskipti með rafbækur fara fram á Netinu á rafrænan hátt eins og nafnið bendir til. Þetta er vistvænn og hagkvæmur kostur.
Guðrún Steinþórsdóttir á Brekku verður deildarstjóri hinnar nýju rafbókadeildar Vestfirska forlagsins, en Nina Ivanova mun sjá um allt umbrot og tæknivinnu á rafbókum forlagsins, en hún hefur í nokkur ár séð um umbrot á mörgum útgáfubókum þess. Eiginmaður Nínu, Ómar Smári Kristinsson, verður aðstoðarmaður hennar svo sem verið hefur.