A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
18.08.2016 - 20:50 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Vestfirsk Menningarnótt í Reykjavík 20. ágúst 2016

« 1 af 4 »
Ísafjarðarbær er gestasveitarfélag Reykjavíkurborgar á menningarnótt og af því tilefni verður slegið upp viðburði frá kl 13-18 í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að kynnast bæði mat og menningu að vestan, eins og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Gísli Halldór Halldórsson, segir frá.

 

Aðdragandi þessa verkefni var sá að Ísafjarðarbær á 150 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni kom Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í opinbera heimsókn á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður, að uppástungu Kristjáns Freys, tónlistarmanns frá Ísafirði,“ rekur Gísli þegar hann er spurður að tilurð þessa skemmtilega viðburðar á Menningarnótt í ár. „Þar gerðumst við Dagur meðal annars gestaplötusnúðar og áttum í framhaldinu ágætis fund í gamla Faktorshúsinu. Á fundinum nefndi svo Dagur þessa hugmynd – að Ísafjörður yrði gestasveitarfélag í tilefni af 150 ára afmælinu, og við því þurfti varla sekúndu umhugsunarfrest.“

Gísli og félagar slógu að sjálfsögðu til og afraksturinn getur að líta á Menningarnótt, nánar tiltekið í Ráðhúsi Reykjavíkur.

 

Víðfrægar Sólarpönnukökur

Í kjölfarið tók við gott samstarf við Höfuðborgarstofu, að sögn Gísla, um að gera þetta með skemmtilegum hætti. „Við fengum Ráðhúsið til afnota og þar fer okkar framlag fram milli klukkan eitt og sex á laugardeginum. Þar má nefna að Ísfirðingafélagið ætlar að bjóða upp á sínar víðfrægu Sólarpönnukökur og þá verða Fjallabræður með kökubasar ásamt því að syngja yfir kökunum. Við verðum auk þess með nokkur tónlistaratriði og þá verður matarkynning í anda Vestfjarða á milli fjögur og sex.“

 

Endurkomu sólar fagnað

Gísli rekur í kjölfarið hvaða hnossgæti telst almennt vera vestfirskar krásir og þær eru ekki af verri endanum. „Ég myndi segja að sprautusaltaði þorskurinn væri þar framarlega í flokki, ásamt steinbít og rækju, enda eru veitingastaðir hér fyrir vestan sem leggja áherslu á fisk rómaðir víða um land. Nægir þar að nefna Tjöruhúsið á Ísafirði. Lambakjötið okkar er ljúffengt og ekki má gleyma mjólkurfyrirtækinu Örnu sem við erum afar stolt af og beinum okkar viðskiptum að í miklum mæli.“ Blaðamaður á móðurættina að rekja vestur á firði, en er þó ekki fróðari en svo að hann verður að biðja bæjarstjórann að spóla lítið eitt til baka og fræða sig ögn meira um þetta forvitnilega fyrirbæri sem bar þarna á góma –

Sólarpönnukökur?

Ekki stendur á svari hjá Gísla Halldóri.

„Það er þannig að 25. janúar er haldið Sólarkaffi á hverju ári, til að fagna því að sólin sést í Sólgötunni á Ísafirði, eftir veturinn. Reyndar er það þannig í hverju húsi á Ísafirði að reglan er sú að þegar sólin skín í fyrsta skipt inn um gluggana eftir veturinn þá hefurðu rétt til að baka pönnukökur og bera fram með þeyttum rjóma og aðalbláberjasultu.“

Viðburðurinn fer því fram að mestu í Ráðhúsinu sem fyrr segir en einnig á Arnarhóli meðfram öðrum tónlistaratriðum, eins og Gísli Halldór útskýrir.

„Rás 2 hefur ennfremur í samvinnu við Höfuðborgarstofu ákveðið að gera gestasveitarfélaginu hátt undir höfði, og það á Arnarhóli, með því að úthluta Fjallabræðrum og fleiri vestfirskum tónlistarmönnum hálftíma þar sem þeir fá að láta ljós sitt skína. Þetta leggst því einkar vel í okkur og við ætlum að hafa gaman af hlutverki okkar sem gestasveitarfélag á Menningarnótt í ár.“


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31