A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
11.06.2015 - 16:29 | BIB,bb.is,Vestfirðir 2015 - Ferðablað

Vestfirðir 2015 - Ferðablað

Simbahallarfjölskyldan á Þingeyri.
Simbahallarfjölskyldan á Þingeyri.
« 1 af 3 »

Ferskir vindar á Þingeyri

Janne Kristensen og Wouter van Hoyemissen eru eigendur kaffihússins notalega, Simbahallarinnar á Þingeyri. Koma þeirra til Þingeyrar var tilviljun háð, eftir að skyndiákvörðun um ferð vestur á firði leiddi af sér enn skyndilegri fasteignakaup. Í ár bættu þau enn við umsvif sín í þorpinu með fyrstu listamannaresidensíunni, Westfjords Residency, af mörgum áformuðum.

 Hús fyrir tvö og fimm

„Við hittumst fyrir tíu árum síðan í Reykjavík. Ég var skiptinemi við Háskóla Íslands og Wouter var að ferðast. Við hittumst á Sirkus eitt kvöldið fyrir tilviljun. Ég hafði þá verið að hugsa um að fara í einhverja ferð áður en skólinn byrjaði og Wouter var einmitt á leiðinni vestur. Ég ákvað bara að fara með og við lögðum af stað næsta dag,“ útskýrir Janne fyrstu ferð sína á Þingeyri.

 Wouter hafði dvalist í þorpinu áður og tók meðal annars þátt í byggingu víkingaþorpsins sem Þingeyri er fræg fyrir. Hann þekkti því ágætlega til í bænum. Hálfu ári eftir fyrstu ferð þeirra vestur frétti Wouter að Simbahallarhúsið, fyrrum kjörbúð, væri til sölu. „Wouter vildi gera tilboð í húsið og gera það upp. Hann ætlaði sér aldrei að búa í því, en var að hugsa um að gera það upp og nota kannski sem sumarhús. Hann var eiginlega ekki með plan. Ísafjarðarbær átti húsið, sem var í frekar slæmu ástandi. Þeir voru að hugsa um að rífa það, en féllust á að selja Wouter það með því skilyrði að hann gerði það upp að utan á innan við þremur árum. Verðið var 2.500 krónur,“ segir Janne og brosir.

 „Þetta fór síðan þannig að þegar átti að skrifa undir samninginn var Wouter ekki með peninga á sér, svo það endaði á því að ég staðgreiddi húsið. Á þessum tíma var ég komin aftur í skólann í Danmörku, svo ég bara keypti hús á Vestfjörðum og fór svo aftur út. Þetta var aldrei mitt verkefni,“ rifjar hún upp.

Simbahöllin sækir í sig veðrið

Wouter hófst þegar handa við að gera upp hið sögulega hús, hellti sér í byggingarstarfið á sumrin en hélt til starfa í Belgíu yfir vetrartímann. „Hann fór svo að verja meiri tíma fyrir vestan og smátt og smátt fæddist hugmyndin um að opna húsið einhvern veginn fyrir almenningi. Þegar við fórum loks að taka til á neðri hæðinni, sem var öll á hvolfi, og sáum innréttingarnar almennilega fundum við að við urðum að gera eitthvað meira við þetta. Húsið átti sér langa sögu í verslun og þjónustu og okkur langaði að gera eitthvað slíkt,“ útskýrir Janne.

 Kaffihúsið Simbahöllin opnaði sumarið 2009 og þau hafa haldið áfram framkvæmdum í húsinu síðan. „Eftir þetta fyrsta sumar tókum við kjallarann í gegn. Fyrstu árin fóru veturnir í framkvæmdir og sumrin voru helguð kaffihúsinu – og það er reyndar enn þannig að ákveðnu leyti,“ segir hún. Þau færðu fljótlega út kvíarnar og opnuðu hestaleigu tveimur árum síðar, eftir að hafa varið vetrinum í að gera upp hesthús.

 Þessa dagana leggst fjölskyldan, sem nú er fjögurra manna með börnunum Fríðu Kötlu, fjögurra ára, og Frosta Snæbirni, eins árs, yfirleitt í ferðalög að vetri. „Síðustu fjögur árin höfum við tekið okkur sumarfrí í september, þegar hestarnir fara í haga, og verið á ferðalagi í tvo, þrjá mánuði. Stundum heimsækjum við bara Belgíu eða Danmörku, en við höfum líka ferðast víðar en svo. Annars erum við á Þingeyri. Það er heimili okkar,“ segir Janne.

 Börnin heita íslenskum nöfnum og Fríða talar fjögur tungumál: íslensku, dönsku, flæmsku og ensku. „Frosti talar ekkert að ráði ennþá, en hann mun líklegast gera það líka. Fríða á ekki í neinum vandræðum með þessi fjögur mál sín, þetta er bara það sem hún er vön,“ segir Janne. Aðspurð um þá ákvörðun að gefa börnunum íslensk nöfn hugsar hún sig um. „Ég veit eiginlega ekki af hverju það gerðist,“ segir hún svo hlæjandi, „við vorum bara að reyna að finna nöfn sem okkur leist báðum vel á. Frida er frekar alþjóðlegt nafn, en við áttum mjög erfitt með að finna strákanafn og okkur fannst báðum Frosti fallegt. Svo það varð raunin,“ segir hún.

Westfjords Residency

Nú í ár tókust Janne og Wouter á hendur nýtt verkefni, þegar þau komu listamannaresidensíunni Westfjords Residency á laggirnar. Fyrsta residensían átti sér stað í maí. „Við höfðum verið að hugsa um að gera eitthvað svona í sjö ár og nú fengum við tækifæri til þess. Það sem við söknum á Þingeyri á veturna er meira félagslíf og viðburðir. Við vildum halda þessa residensíu sjálfra okkar vegna,“ útskýrir Janne. „Wouter vantaði stað fyrir verkfærin sín og fór að svipast um eftir honum. Þá fréttum við af húsi til sölu, sem var að vísu töluvert stærra en við höfðum ætlað okkur en á góðu verði, svo við slógum til og keyptum það. Það er núna verkstæði fyrir Wouter, en líka efri hæð með íbúð þar sem fólk getur dvalist og unnið að ýmsum verkefnum,“ segir hún frá.

 Frá 8. til 18. maí dvöldust tíu listamenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Englandi á Þingeyri á meðan á fyrstu Westfjords Residency listamannadvölinni stóð. „Við unnum þetta í samvinnu við Samönthu vinkonu okkar í Seattle. Hún bjó til heimasíðuna okkar og við lítum á þetta sem nokkurs konar tilraunadvöl. Hugmyndin er að bjóða tíu listamönnum að vera í tíu daga, og það er eitthvað sem okkur langar til að gera einu sinni eða tvisvar á ári. Á sumrin þurfum við húsið fyrir sjálfboðaliðana okkar sem vinna á kaffihúsinu, en frá október til maí gæti það líka staðið öðrum til boða, þremur til fjórum listamönnum eða einstaklingum sem myndu koma hingað til að vinna að sínum verkefnum,“ segir Janne.

 Listamannahópur ársins hafði algjörlega frjálsar hendur, en Janne og Wouter útiloka ekki að framtíða dvalir hafi einhvers konar þemu eða markmið. „Fólk gæti til dæmis komið og hjálpað til við að mála skólann, eða hvað sem er. Hugsjónin okkar er að búa til eitthvað líf yfir vetrarmánuðina og laða fólk að bænum. Við viljum hætta að hugsa bara um framtíðina út frá fiski og búa líka til einhvers konar listræna hugsjón fyrir framtíðina. Þetta gæti orðið fyrsta tækifæri margra ungra listamanna og skapandi fólks til að koma til Þingeyrar. Það er nefnilega erfitt að koma hingað þegar maður er ekki hluti af samfélaginu, en listamannadvölin gæti gert það mun auðveldara,“ útskýrir hún.

Annað markmið væri að skapa störf fyrir fólk úr skapandi greinum eða menningu. „Okkur langar að flytja inn fólk sem er venjulega ekki að finna í litlum þorpum eins og Þingeyri, og hvetja það til þess að vera hér,“ bætir hún við.

 Þessari fyrstu listamannadvöl tókst sannarlega að blása lífi í þorpið. „Þetta var mjög skemmtilegt og góður hópur fólks. Við vorum með ljósmyndara, arkitekt, listmálara og hönnuði. Og bara það að þau séu hérna er skemmtileg tilbreyting. Í gær fóru nokkrir strákanna út að skokka upp Sandafell. Þrír hipsterastrákar í hjólabuxum að hlaupa upp fjall – það er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi,“ segir hún og brosir. „Þetta er orkuskot fyrir þorpið, það myndast góð stemning í kringum þetta,“ segir Janne.

 Simbahöllin verður opin daglega í sumar, frá og með 22. maí. Fyrir frekari upplýsingar um kaffihúsið má heimsækja simbahollin. is. Forvitnum um listamannadvölina er bent á westfjordsresidency.com

Ferðablaðið Vestfirðir 2015

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31