A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
30.11.2012 - 10:36 | bb.is

„Vestfirðina upp!“

Þingeyri. Ljósmynd: Mats
Þingeyri. Ljósmynd: Mats
Eftirfarandi frétt birtist á bb.is:
Sigmundur F. Þórðarson íbúi á Þingeyri hafði samband við blaðið og vildi leggja sitt á vogarskálarnar í umræðunni um jarðgöng á Vestfjörðum. Hann er ekki sáttur við að verið sé að „hræra í" hugmyndum og gildandi áætlunum um jarðgangagerð og vegabætur milli suður- og norðursvæðisins. „Ef við ætlum að byggja þennan kjálka saman, þá verðum við líka að vinna þetta saman," segir Sigmundur og er mikið niðri fyrir. „Við Vestfirðingar erum engir þurfalingar á íslensku samfélagi, það koma bara örfá prósent til baka af því sem við leggjum til þjóðarbúsins. Það hafa margir sýnt fram á þetta með tölum, en því miður fáir sem hlusta," heldur Sigmundur áfram.

„Við verðum að gera átak í atvinnumálunum og möguleikarnir sem felast í fiskeldinu til dæmis, öll tækifærin sem þar liggja, þau nýtast okkur ekki nema samgöngur innan svæðisins séu í lagi allt árið um kring."

 

Sigmundur segir Vestfirðinga orðna hvekkta eftir margra ára baráttu og gefur fyrrverandi samgönguráðherra, Kristjáni Möller, ekki háa einkunn. Ráðherrann hafi gefið yfirlýsingar opinberlega um framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og gengið svo á bak orða sinna og sett framkvæmdir við Bolungarvíkurgöng framar í röðina. Sigmundur tók þátt í að skipuleggja hátíð sem haldin var á Dynjandisheiði í tilefni 50 ára afmælis Dynjandisheiðar 2009, hann segist muna það vel að ráðherrann mælti þar í ræðu sinni að það bæri að biðja Vestfirðinga afsökunar á því hvernig vegum á Vestfjörðum væri háttað og hversu lélegir þeir væru. Átti hann þá við leiðina frá Þingeyri allt að Þorskafirði, þó örfáir spottar séu malbikaðir á leiðinni.

 

Sigmundur hefur unnið í sveitarstjórnarmálum í áratugi og sat í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps í tólf ár. Hann hefur verið virkur þátttakandi í umræðunni um samgöngumál og skoðar að vonum málin út frá sjónarhóli Dýrfirðingsins. Sigmundur vill skoða vestfirskt samfélag sem eina heild og fyrir honum er mikilvægt að rækta menningarsamskiptin innan svæðisins. Þingeyri við Dýrafjörð er sá byggðarkjarni sem liggur næst miðju Vestfjarðakjálkans og vera má að hugsunin hjá honum og fleirum mótist að einhverju leyti af miðlægri staðsetningu innan svæðisins.

 

„Við verðum að vera samstíga, við verðum að fá Vestfirðina upp," segir Sigmundur Þórðarson á Þingeyri.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31