A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
31.08.2016 - 07:54 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Verndarenglar gersema Selárdals

Unnið er hörðum höndum að því að koma byggingum Samúels Jónssonar í sitt upprunalega horf.
Unnið er hörðum höndum að því að koma byggingum Samúels Jónssonar í sitt upprunalega horf.
« 1 af 2 »

• Endurreisa listaverk og byggingar Samúels Jónssonar á Vestfjörðum


„Langtímamarkmiðið er að það geti einhver verið á staðnum yfir sumartímann, tekið á móti gestum og sagt þeim frá öllu því sem þarna hefur átt sér stað,“ segir Kári G. Schram, formaður Félags um listasafn Samúels í Selárdal sem stofnað var árið 1998 en tilgangur félagsins er að stuðla að endurreisn listaverka og bygginga hins vestfirska listamanns Samúels Jónssonar. Félagið er nú að ljúka við að klæða hús Samúels og hefja þar innréttingar. Í húsinu á að vera gestaíbúð fyrir listamenn, fræðimenn og aðra áhugasama.

 

Endurbyggðu íbúðarhúsið

„Ég og Ólafur Jóhann Engilbertsson gerðum heimildarmynd um Samúel og staðinn á sínum tíma og í kjölfarið af því stofnuðum við þetta félag en markmið þess er að halda staðnum við þannig að hann fjúki ekki út í veður og vind. Við fengum til okkar myndhöggvarann Gerhard König og hann hefur verið okkur innan handar og meðal annars staðið að viðgerðum á listaverkum Samúels. Hann kann allar kúnstirnar og þekkir efniviðinn vel,“ segir Kári.

Samúel fæddist árið 1884 og lést 1969. Allt sitt líf vann hann erfiðisvinnu og bjó lengst af í Selárdal og Krossadal. Flest verka Samúels eru að Brautarholti í Selárdal, fyrir utan málverkin sem flest eru í eigu einkaaðila. Á Brautarholti eru þrjár byggingar sem Samúel reisti, listasafn, kirkja og íbúðarhús úr timbri. Höggmyndagarður er staðsettur á milli húsanna og eru stytturnar eingöngu úr steinsteypu. Líklega er ljónagosbrunnur nokkur þekktasta verk Samúels en það er eftirlíking af gosbrunni í Alhambra á Spáni. Einnig má nefna styttu af Leifi heppna sem sýnir kappann þegar Ameríka er í sjónmáli.

„Við höfum nú þegar náð að bjarga styttunum en það var auk þess gríðarlega mikið sem þurfti að gera varðandi kirkjuna og listasafnið. Það tekur alltaf langan tíma fyrir lítil félög eins og okkur, sem eru að berjast í þessu með fjármagn af skornum skammti, að vinna svona verk. Íbúðarhúsið var líka svo illa á sig komið að það var eiginlega bara komið að hruni. Í því var einn útveggurinn steyptur af Samúel og við lögðumst í það að rífa húsið en láta vegginn standa og halda sér. Við höfum verið með fólk í liði með okkur við að endursmíða húsið í sömu mynd og Samúel skildi við það og er húsið nú orðið fokhelt,“ segir hann.

 

Standa í fjárhagslegri glímu

„Meiningin er síðan að vera með aðstöðu í húsinu fyrir listamenn og aðra sem vilja koma og vinna þar eða kynna sér svæðið á einn eða annan hátt. Við eigum þó enn þá svolítið í land með að það geti orðið að raunveruleika. Það þarf til að mynda enn þá að laga ýmislegt í kirkjunni og í listasafninu. Það voru gerðar hérna bráðabirgðaviðgerðir á þeim tveimur húsnæðum sem eru að bregðast okkur núna. Það þarf að forða þeim húsum frá skemmdum. Eins og áður segir erum við bara að standa í fjárhagslegri glímu við þetta allt saman. Safnið byggir nú að mestu á frjálsum framlögum frá gestum á svæðinu,“ segir Kári en þess má geta að Ferðamálastofa og Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hafa einnig stutt verkefnið.

„Það er í rauninni það sem hefur haldið okkur á lífi. Þetta verkefni á þá styrki svo sannarlega skilið enda eru hér mikil menningarverðmæti sem þarf að halda lifandi. Það er bara eilífur barningur að passa upp á að allt sé í lagi þar sem hér eru mjög slæm veður á veturna og það þarf allt að vera vel gert svo að „elementin“ taki þetta ekki allt til sín,“ segir hann og bætir við að hann sé afar þakklátur öllum velviljurum safnsins og þeim sem hafa sýnt stuðning.

„Þetta er að sjálfsögðu strembið verkefni en það er ögrandi og skemmtilegt og staðurinn einstakur þannig að við erum bara stolt af því sem við höfum náð að gera hingað til. Ég undirstrika þó að það er hellingur eftir,“ segir hann.

„Við erum hins vegar mjög spennt, þetta á eftir að verða mjög lifandi staður þegar gestastofan opnar á næsta eða þarnæsta ári. Þá verður líka vonandi einhver kominn hingað til að vinna hér og segja gestum frá sögunni á bak við staðinn. Það er engin aðstaða núna til að setja upp sýningar en það verður vonandi orðin raunin í náinni framtíð. Það er hluti af þessu langtímamarkmiði,“ segir hann. Þess má geta að Kári og Ólafur Jóhann eru einnig að safna fjármagni til þess að endurvinna heimildarmyndina um Samúel og vonast þeir til þess að klára það fyrir næsta sumar.

Áhugasamir geta séð og kynnt sér Samúel, safnið og Selárdal á nýrri heimasíðu félagsins, samueljonssonmuseum.jimdo.com.

 

Morgunblaðið 30. ágúst 2016

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31