Verður Vegna veðurs vegna veðurs?
Veðrið hefur lengi verið einn helsti innblástur og áhrifavaldur í lífum þeirra sem byggja þetta sker í norðrinu. Það eru fáir mánuðir sem alla jafna hafa eins mikil áhrif og hinn forni þorri og þorrinn bauð velkomna til Þingeyrar þrjá litháíska listamenn, ásamt þremur íslenskum til þess að fremja list sína innblásna af hinu vinsæla umræðuefni – veðrinu. Listamennirnir hafa unnið verk sín á Þingeyri ásamt því að hafa allir boðið upp á námskeið þar í bæ undanfarinn mánuð, þar sem bæjarbúar hafa meðal annars sótt námskeið í vatnslitun og vindhanagerð.
Á Þingeyri hafa verið listsýningar í sýningarröðinni Questioning Arts síðustu þrjá laugardaga og hafa þær allar verið frá hópum þeim er dvöldu í listavinnustofu úti í Litháen á síðasta ári. Fjórða og síðasta sýningin er afrakstur síðasta hópsins sem vann verk sín á Þingeyri og er því um að ræða frumsýningu verkanna. Verkefnið er samstarfsverkefni Listavinnustofu Utena í Litháen og Simbahallarinnar.
Listamennirnir verða á staðnum og kynna verk sín, þeir eru: Björg Sveinbjörnsdóttir, Haukur Sigurðsson, Nína Ivanova, Aurelija Maknytė, Mykolas Natalevičius og Žilvinas Landzbergas. Á sýningunni kennir ýmissa grasa, þar sem sýnd verða hljóð- og myndbandsverk, innsetning, útilistaverk og verk með blandaðri tækni.
Gestalistamenn á laugardaginn verða Anna Sigríður Ólafsdóttir, sem flytur gjörninginn Deyjandi sjálf, nemendur Grunnskólans á Þingeyri sem verða með myndbandsverk og kaffigestir á Tjörn sýna vatnslitamyndir.
Sýningin hefst klukkan 14 í Simbahöllinni og eru verkin sýnd á nokkrum stöðum í bænum, sem allir eru í góðu göngufæri við Simbahöllina. Aðgangur að öllum verkum verður til 15:30, en þá verður einungis opið í Simbahöllinni á meðan að Mykolas Natalevičius verður með lifandi tónlistarflutning í kirkjunni og Anna Sigríður verður með gjörning í Félagsheimilinu. Klukkan 16:30 verður svo opið á öllum stöðum á nýjan leik. Kaffihúsið í Simbahöllinni verður opið og hægt að krækja sér í belgíska vöfflu og rjúkandi kaffi.
Í fréttatilkyninningu er fólk hvatt til að mæta og er það beðið um að hafa góða veðrið með sér. Heldur ósennilegt verður að teljast að gestir geti orðið við þeirri bón, enda við stóran að deila í þeim efnum, en á Vestfjörðum er búist við stormi og snjóbyl á morgun. Ekki eru neinar fyrirætlanir aðrar en þær að sýningin verði eins og auglýst er – Vegna veðurs fellur ekki niður vegna veðurs.
Samsýning allra listamannanna sem unnu á vinnustofunum fjórum verður opnuð 31. mars í Utena í Litháen, svo komist gestir ekki til Þingeyrar á laugardaginn má halda þeim möguleika opnum að sjá verkin í Litháen
______________________________________________________________________
Í rigningu ,snjókomu og stormvindum, buðu janúar og febrúar, stormasömustu mánuðir ársins, þremur íslensku og þremur litháísku listafólki til að vinna í list sinni í mánuð á Þingeyri. Veðrið veitti listafólkinu innblástur og því kallast síðasta sýningin VEGNA VEÐURS. En eins og við vitum eru flestar okkar ráðstafanir háðar því hvort veðrið leyfi okkur að fylgja þeim eftir. Við höfum unnið í heilan mánuð og hafa falleg og skemmtileg listaverk fæðst á þessum dramatíska árstíma.
„Veturnir Fjórir“ (4:10) frumsýnd á Þingeyri á morgun, laugardag!
Sjá þetta:
https://www.facebook.com/rukuah/videos/10153805107140469/
Listamenn:
Björg Sveinbjörnsdóttir – hljóðverk
Haukur Sigurðsson – stuttmynd
Nína Ivanova - blönduð tækni
Aurelija Maknytė – innsetning
Mykolas Natalevičius - tónverk
Žilvinas Landzbergas - útilistaverk
Gestalistamenn:
Anna Sigríður Ólafsdóttir - gjörningur
Grunnskólinn á Þingeyri – vídjó verk
Kaffigestir í Tjörn, heimili aldraðra – vatnslitamyndir
Endilega kíkiði við á laugardaginn 20. febrúar og hafið með ykkur góða veðrið!