Verðum að grípa til einhverra ráða vegna áníðslu
• Sett upp salerni og hafin gjaldtaka í garðinn Skrúð
„Orðin er það mikið áníðsla á garðinn að við verðum að grípa til einhverra ráða. Við berum ábyrgð á garðinum ásamt Ísafjarðarbæ,“ segir Brynjólfur Jónsson, formaður Framkvæmdasjóðs lystigarðsins Skrúðs á Núpi í Dýrafirði. Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að hefja þar gjaldtöku í sumar og gerir Ísafjarðarbær sem er eigandi garðsins ekki athugasemd við það.
Skrúður er meira en aldargamall, lítil perla í Dýrafirði.
Eftir að garðurinn var endurnýjaður fyrir tuttugu árum hefur aðsókn að honum aukist. Síðustu árin hefur hann orðið reglulegur viðkomustaður farþega skemmtiferðaskipa. Er talið að 5-6 þúsund gestir af skemmtiferðaskipum komi þar við en minna er vitað um fjölda annarra gesta. Gestafjöldinn er þó talinn vera að minnsta kosti 8 þúsund manns á sumri.
Ef 5.000 gestir greiða 300 krónur hver fær garðurinn um 1,5 milljónir í tekjur á sumri. Framkvæmdasjóður Skrúðs hefur haft starfsmann í þrjá mánuði á sumrin til að halda við gróðri og umhverfi. Ríkissjóður styrkti lengi starfið en fjárframlög hafa farið lækkandi og féllu alveg niður á fjárlögum þessa árs.
Salerni nauðsynleg
Brynjólfur segir að í vor verði komið upp salernisaðstöðu til bráðabirgða og hafin innheimta gjalds fyrir aðgang að garðinum og er fjárhæðin 300 krónur á mann nefnd í því sambandi. Ekki verður ráðinn starfsmaður til að innheimta gjaldið eða sett upp sjálfvirkt hlið heldur aðeins upplýsingaskilti og gjaldtökukassar. Samið verður sérstaklega við reglulega viðskiptavini, svo sem fyrirtækin sem aka með farþega skemmtiferðaskipa og aðra hópa.
Brynjólfur segir að jafnframt sé verið að huga að skipulagi til að koma fyrir varanlegum salernum. Hann segir að sífellt meiri tími umsjónarmanns garðsins fari í það að þrífa upp pappír og það sem honum fylgir eftir gesti sem gangi örna sinna í útjaðri svæðisins. Ekki sé hægt að draga það lengur að bæta aðstöðuna.
Morgunblaðið 19. maí 2017.