A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
18.03.2015 - 20:51 | Hallgrímur Sveinsson,Á förnum vegi fyrir vestan:

Verðum að fá að róa til fiskjar úr sjávarþorpunum!

Á leið í gjafirnar. Ljósm.: HS
Á leið í gjafirnar. Ljósm.: HS
« 1 af 4 »

Við hittum Sigurð Fr. Jónsson útvegsbónda, Siggja Friggja upp á vestfirsku, á förnum vegi í gær. Hann stundar bæði sjó- og landbúskap. Hefur stundað sauðfjárrækt í rúmlega hálfa öld, fyrstu áratugina  á Þingeyri og síðan í Fellasókn í mörg ár. Svo hefur hann stundað sjóinn lengi á eiginn útveg frá Þingeyri. Sigurður var á yngri árum veghefilsstjóri hjá Vegagerðinni. Viðurkenndur sem einn sá snjallasti þar undir stýri. Þó ofaníburðurinn væri oft lítill, skilaði Sigurður vegunum undan hefiltönninni eins og hefluðum fjölum.  
 

Hvað er að frétta úr landbúskapnum Sigurður?

Allt svona bærilegt. Við erum með 25 ær, 6 lömb og 2 hrúta á fóðrum í vetur. Við erum nokkuð ánægðir með okkur í Fellasókn, nema altarisgöngur mættu vera fleiri!

Ætlar þú svo á grásleppuna í vor að vanda?

Já, ég reikna með því. Menn mega byrja að leggja 1. apríl.

Hvað með verðið á hrognunum?

Þau hafa alltaf verið sveiflukennd. Nú kaupa þeir grásleppuna óskorna í heilu lagi eins og hún leggur sig á bryggju á Þingeyri, ísaða í kar. Í fyrra fengum við 160 kr. fyrir kílóið. Ég hef stundað grásleppuna í all mörg ár og hefur gengið alveg þokkalega hjá mér. Er bara einn á mínum bát og hef verið ánægður með mitt. 

Svo ert þú einn af kvótagreifum landsins!

Já, það er nú víst. Ég má fiska nokkur kíló á ári. Í sumar er meiningin að leggja upp hjá nýja fyrirtækinu, Íslensku sjávarfangi. Það ætla hinir trillukarlarnir líka að gera og Stebbi frá Dýrhól.

Ekki má nú sleppa þér án þess að fá fréttir af Harmonikukörlunum og Lóu. Þetta er 11 manna band með söngvara og þú ert framkvæmdastjóri þeirrar þekktu hljómsveitar!

Þar er allt undir kontról. Þó hefur verið erfitt til sóknar á æfingar í vetur vegna illviðra. Sumir koma alla leið handan úr Mýrahreppi. Áhuginn er svo mikill. Hljómsveitarstjórinn okkar, Guðmundur Ingvarsson póstmeistari, stjórnar þessu af léttleika. Við spilum við ýmis tækifæri. Til dæmis á stórmótum hjá Magnúsi Bocchiakappa og svo á Harmonikudeginum á vorin.

Hvað viltu segja um framtíðina? Ég vona bara að búseta blessist hér til sjós og lands. En við þurfum að lagfæra ýmislegt. Til dæmis það að við verðum að fá að  róa til fiskjar úr sjávarþorpunum.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31