Verð ekki eins og drottning frænka
Margrét Þórhildur Danadrottning tók á móti hópi íslenskra fjölmiðlamanna í Amalienborgarhöll í Kaupmannahöfn í morgun. Hún sagðist hlakka til heimsóknar Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og að fá að fræðast meira um Ísland af honum.
Hann er jú sagnfræðingur og veit margt um Ísland og söguna, sagði drottningin hlæjandi.
Heimsókn íslenska fjölmiðlafólksins var í boði danska utanríkisráðuneytisins í tengslum við fyrirhugaða heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og Elizu Reid forsetafrúar 24.-25. janúar. Spurð hvort opinberar heimsóknir sem þessar væru mikilvægar kvað drottning já við. Samband Íslands og Danmerkur væri sterkt og með langa sögu. „Þetta er gott tækifæri til að kynnast betur og styrkja tengslin á milli þjóðanna,“ sagði drottningin.
Nú er nýkjörinn forseti Íslands tiltölulega ungur að árum og nýr í embætti. Yðar hátign hefur nú setið á stóli í rúm 44 ár, mun yðar hátign gefa honum góð ráð?
„Ég á ekki von á því. Hann er jú þroskaður maður með talsverða lífsreynslu. Við munum svo sannarlega ræða margt, en ég verð ekki eins og einhver drottning frænka (Tante dronning) sem segir honum hvernig hann á að vera,“ svaraði drottningin og skellti upp úr.
Lengra viðtal við Margréti Þórhildi Danadrottningu mun birtast í Morgunblaðinu á morgun.