A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
18.07.2010 - 21:55 | JÓH

Vel heppnuð hlaupahátíð að baki

Hlauparar í skemmtiskokkinu hlaupa út Sneiðingana. Mynd: Borgný Gunnarsdóttir.
Hlauparar í skemmtiskokkinu hlaupa út Sneiðingana. Mynd: Borgný Gunnarsdóttir.
« 1 af 5 »
Vesturgötuhlaupið fór fram í blíðskaparveðri í dag. Sveinn Margeirsson og Eva Margrét Einarsdóttir komu fyrst í mark en um 90 þátttakendur þreyttu hlaupið. Hlaupið var frá Stapadal í Arnarfirði, út fyrir Sléttanes og inn að Sveinseyri - alls 24 km leið. Einnig var hægt að hlaupa hálfa Vesturgötu, 12 km leið, og þar voru um 70 þátttakendur. Þar komu Benni Sig og Martha Ernstsdóttir fyrst í mark.

Fjallahjólareiðakeppni Höfrungs fór fram í gær en þar var hjóluð um 55 km leið um skagann milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Rásmarkið var við Íþróttamiðstöðina á Þingeyri og þaðan var hjólað upp Kirkjubólsdal og yfir Álftamýrarheiði, niður Fossdal, "út fyrir nes" og þaðan eftir ýtuvegi Elíasar Kjaran inn Dýrafjörð. Davíð Þór Sigurðsson frá Hafnarfirði kom fyrstur í mark en hann hjólaði leiðina á innan við þremur tímum. Í kvennaflokki var Dýrfirðingurinn Urður Skúladóttir fyrst til að klára keppnina en hún hjólaði á rúmlega þremur og hálfum tíma. Þátttakendur voru 37 talsins og luku 35 þeirra keppni. Þá var einnig hlaupið 4 km skemmtiskokk á Þingeyri á meðan hjólreiðakeppnin fór fram en þar tóku yfir 80 manns þátt. Að keppni lokinni var öllum boðið upp á vöfflur með rjóma að hætti Ingibjargar Þorláksdóttur. Eftir skemmtiskokkið var einnig boðið upp á fyrirlestur með Gunnlaugi Júlíussyni maraþonhlaupara, og hópjóga með Mörtu Ernstsdóttur.

Óshlíðarhlaupið var fyrsta hlaupið í Hlaupahátíðinni en það var hlaupið á föstudagskvöldið. Hlaupið var frá Bolungarvík og endað á Silfurtorgi á Ísafirði. Frekari úrslit úr hlaupunum og hjólreiðakeppninni er að finna á www.hlaup.com.

Þetta er í annað sinn sem Hlaupahátíð á Vestfjörðum fer fram en hlaupahóparnir Riddarar Rósu og Langvest standa að hátíðinni. Mikil ánægja var með hátíðina en hún verður haldin aftur að ári, dagana 15. - 17. júlí.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31