29.12.2008 - 02:27 | dv.is
Vegagerðin á ekki fyrir snjómokstri
Mikil óánægja ríkir hjá íbúum Vestfjarða þessa dagana en ófært hefur verið milli Hrafnseyrar og Dynjandaheiðar nú um nokkurn tíma. Það þýðir að lokað er milli suður- og norðurfjarða Vestfjarða. Vegagerðin hefur ekki séð sér fært að sinna snjómokstri þrátt fyrir loforð um annað.
Að sögn íbúa var talað um það fyrir jól að Vegagerðin myndi athuga með mokstur ef veður leyfði en enn bólar ekkert á snjómokstursvélunum þrátt fyrir að veður sé með ágætum á þessum slóðum. Ástæðan ku vera fjárskortur Vegagerðarinnar.
„Við höfum hreinlega ekki fé til þess." segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrú Vegagerðarinnar aðspurður um ástæður tafarinnar. „Vetrarþjónustan hefur ekki fengið mikið fé á undanförnum árum og því síður í núverandi árferði. En við skiljum Vestfirðinga vel."
G. Pétur segir ekki hægt að moka endalaust án þess að fara í stóran mínus, enda hafi verið mokað meira í vetur en efni gáfu tilefni til.