VG stærsti flokkurinn
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er orðin stærsti flokkur landsins samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var fyrir Morgunblaðið dagana 19. til 21. september 2017.
Flokkurinn nýtur fylgis 30% kjósenda og fengi samkvæmt því 22 þingmenn. Hann hefur nú 10 þingmenn. Umtalsverður munur er á fylgi VG eftir kynjum. Ætla 20% karla að kjósa flokkinn en 40% kvenna.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar verulegu fylgi frá þingkosningunum í fyrra, samkvæmt könnuninni. Stuðningur við hann mælist 23% og fengi hann 15 þingmenn í stað 21 sem hann hefur nú. Flokkur fólksins fengi 5 þingmenn kjörna, en hefur engan þingmann núna. Björt framtíð næði ekki manni á þing.
Viðbrögð leiðtoga flokkanna einkennast af óvissu um stöðu mála. Vísa margir í „rót“, „flot“ og „hreyfingu“ á fylginu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst hlakka til að fara á fund kjósenda en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins segir að könnunin gefi flokksmönnum byr undir báða vængi.
77% töldu rétt að rjúfa þing
Könnunin leiddi ennfremur í ljós að 57% kjósenda telja að rétt hafi verið að slíta stjórnarsamstarfinu og er áberandi stuðningur við það meðal kvenna og yngra fólks. 77% töldu að rétt hefði verið að rjúfa þing og efna til kosninga fremur en að mynda nýja ríkisstjórn. Þá kom fram að 87% telja „mjög líklegt“ að þeir greiði atkvæði í þingkosningunum í október.
Morgunblaðið 23. september 2017.