A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
17.08.2017 - 06:41 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

"Útvarp Vestfirðir,gott kvöld" Úr annál ársins 1991 - fyrri hluti

Finnbogi Hermannsson.
Finnbogi Hermannsson.

     Þetta voru ávarpsorð Svæðisútvarps Vestfjarða í upphafi útsendinga. Margir sjá eftir Svæðisútvarpinu og Finnboga Hermannssyni og mörgum sem með honum störfuðu. Halla Ólafsdóttir, sú góða útvarpskona, heldur uppi merkinu núna og stendur sig afbragðsvel. Spurningin er þessi: Kemur Svæðisútvarpið einhverntíma aftur? 

 

    Hallgrímur Sveinsson var fréttaritari Útvarps í Þingeyrarhreppi í allmörg ár. Í upphafi árs 1992 flutti hann eftirfarandi pistil í Svæðisútvarpið um annál ársins 1991 úr Þingeyrarhreppi:

     "Svo byrjað sé á veðrinu, þá var það með eindæmun hagstætt þegar litið er yfir árið í heild. Sjósókn var þó oft mjög erfið, bæði á minni og stærri skipum, en við landkrabbarnir gleymum því oft þegar við dásömum veðrið uppi á landinu, að vestfirsk fiskimið eru einhver þau erfiðustu til sóknar sem um getur á jörðinni.

     Í aftakaveðri sem gekk yfir landið í febrúar, varð talsvert tjón á mannvirkjum á nokkrum stöðum í hreppnum, en annars var veður oft það stillt og gott fyrstu vikur ársins, að sjá mátti ólíklegustu menn í rómantískum gönguferðum með konum sínum á síðkvöldum.

     Hvað atvinnu snertir, má segja að flestir hafi haft nóg að starfa og afkoma fólks nokkuð góð eftir atvikum og oft var skortur á vinnuafli í ýmis störf.

     Minnst var 80 ára vígsluafmælis Þingeyrarkirkju 14. apríl og bárust kirkjunni margar góðar gjafir af því tilefni.

     Sparisjóður Þingeyrarhrepps tók í notkun nýtt og glæsilegt húsnæði 15. mars og verður Verkalýðsfélagið Brynja einnig þar til húsa.

     Endar náðu saman í vegfyllingu yfir Dýrafjörð 4. maí og Dýrafjarðarbrú þar með orðin að veruleika. Hefur brúin geysilega þýðingu fyrir mannlíf hér um slóðir og er gott dæmi um hvað bættar samgöngur eru mikils virði fyrir Vestfirðinga. Þess má geta, að liðin eru um 20 ár síðan heimamenn fóru að nudda í ráðamönnum um brú þessa.

     Bankastjórn og bankaráð Seðlabanka Íslands héldu formlegan fund í sveitarfélaginu á árinu, nánar tiltekið á Hrafnseyri 27. maí. Vestfirsk þrastarhjón höfðu gert sér hreiður í gluggakistu fyrir utan steindan glugga, sem er til minningar um Hrafn Sveinbjarnarson, fyrsta lærða lækninn á Íslandi. Meðan hinir virðulegu bankamenn ræddu vaxta og gengismál, gátu þeir fylgst nákvæmlega með því hvað var í matinn hjá þrastarhjónunum. Höfðu þeir á orði að fundur þeirra hefði verið mjög ánægjulegur og þrastarhjónin og ungar þeirra sett skemmtilegan svip á hann.

     Bankastjórnin og bankaráðið skoðuðu einnig Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri undir leiðsögn Matthíasar Guðmundssonar,sem varð reyndar áttræður á árinu, en smiðja hans er einstæð að því leyti, að hún er varðveitt svo til óbreytt frá því hún var stofnuð árið 1913. 

     Golfklúbburinn Gláma var stofnaður á árinu og eru félagar um 30 talsins. Hafin er gerð golfvallar í landi Meðaldals, undir forystu formanns klúbbsins, Þrastar Sigtryggssonar, fyrrum skipherra.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31