Úrskurðurinn sagður áfall
Þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, féllst á hina umdeildu veglínu en nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt úr gildi hluta úrskurðar ráðherrans, þó ekki þann hluta sem snýr að Teigsskógi. Dómurinn telur að ráðherrann hafi ekki með fullnægjandi hætti rannsakað umhverfisáhrif þverunar á lífríki í fjörðunum og þar með brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Gunnlaugur Pétursson, einn kærenda, kveðst hæstánægður með þennan áfangasigur, og hvetur til þess að hætt verði við vegagerðina enda valdi hún miklum náttúruspjöllum. Velja eigi annan kost, annaðhvort að leggja veg yfir Hjallaháls eða bora göng undir hálsinn. Úlfar Thoroddssen, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, segir úrskurð Héraðsdóms feiknarlegt áfall.
Kveðst Úlfar eiga ákaflega bágt með að trúa því að umhverfisráðherra og ráðuneytismönnum hafi yfirsést svo viðamikið atriði, sem dómurinn telur, og hvetur Vegagerðina til þess að láta á það reyna fyrir Hæstarétti. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir ljóst að þessi úrskurður muni örugglega valda töfum en Vegagerðin skoði nú hvort áfrýjað verði til Hæstaréttar.