Úr kurteisisheimsókn til Hrafnseyrar
Á Þorláksmessu, 23. des. 2016, tókum við þessa mynd í heiðskíru veðri á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.
Til vinstri á myndinni er endurgerður fæðingarbær Jóns Sigurðssonar. Hrafnseyrarnefnd lét leggja hornstein hans 17. júni 1994 og tekinn var hann í notkun 17. júní 1997. Það var afi Jóns og alnafni sem reisti bæinn upphaflega um aldamótin 1800 eftir teikningum séra Guðlaugs Sveinssonar í Vatnsfirði við Djúp sem hann birti 1791. Hugmyndir séra Guðlaugs voru í raun fyrstu hugmyndir um byggingu burstabæja á landinu sem vitað er um og má hann því kallast faðir íslenska burstabæjarins, sagði próf. Þórhallur Vilmundarson. Þess má geta, að burstabæir urðu ekki algengir í sveitum landsins fyrr en um miðja 19. öld.
Hrafnseyrarkirkja til hægri, elsta húsið á staðnum, var vígð 28. febrúar 1886 af séra Janusi Jónssyni próf. í Holti í Önundarfirði. Er vígsludagurinn nokkuð sérstakur miðað við þeirra tíma samgöngur. Kirkjuna lét reisa sr. Þorsteinn Benediktsson, sóknarprestur á Hrafnseyri. Kirkjan kostaði fullbyggð 1,797 kr. og 22 aura samkvæmt frásögn Guðmundar Friðgeirs Magnússonar heitins í 1. hefti Mannlífs og sögu.
Brekkan ofantil við bæinn og kirkjuna heitir Bælisbrekka.
Yfir staðnum rís svo Ánarmúli, sem heitir í höfuðið á Áni rauðfeldi frá Hrafnistu í Noregi, sem fyrstur manna bjó á Eyri með konu sinni, Grelöðu Bjartmarsdóttur, jarls á Írlandi. Sagt er að landnámsmenn hafi viljað láta greftra sig á víðsýnum stöðum. Frú Grelöð hefur trúlega látið þetta eftir kallinum! Alla vega segja munnmæli að Án sé heygður á fjallinu sem nefnt er eftir honum.