A A A
14.01.2020 - 14:16 | Vestfirska forlagiđ

Úr fórum Vestfirska forlagsins: Til upplyftingar!

Sturla Jónsson horfir yfir sinn ástkćra Súgandafjörđ. Ljósm. úr fórum Sigrúnar Sturludóttur og ţeirra systkina.
Sturla Jónsson horfir yfir sinn ástkćra Súgandafjörđ. Ljósm. úr fórum Sigrúnar Sturludóttur og ţeirra systkina.

Af því að veðrið er nú svona eins og það er, ætti að vera vel viðeigandi að reyna að gera mönnum glatt í sinni. Á það nú reyndar við í hvaða veðri sem er,  en sjaldan eins og nú. Munum við því á næstunni birta eina gamansama og fróðlega sögu úr öllum hreppum okkar gömlu Vestur-Ísafjarðarsýslu. Þær eru úr fórum Vestfirska forlagsins.  Sú fyrsta er úr nyrsta hreppnum. H. S.


Haukdalsfranska á Fjórðungsþingi

Einhver nafnkunnasti maður á Suðureyri á 20. öld var Sturla Jónsson hreppstjóri. Sturla var eftirminnilegur persónuleiki. Hann var mikill baráttumaður fyrir Súgandafjörð. Hann sagði oft á þingum og vitnaði þá til þeirra dönsku: „Súgandafjörður besejles ikke.“ Ekki er siglt til Súgandafjarðar. Þetta taldi hann vott þess hversu staðurinn hafði oft verið afskiptur. Notaði það óspart til að fá menn í lið með sér í ýmsum baráttumálum Súgfirðinga. Vitnum nú í Ólaf Þ. Þórðarson, alþingismann, þegar hann minntist vinar síns í Mbl. 12/10 1996:

Dó ekki ráðalaus!
„Hann var oddviti Súgfirðinga í 24 ár, hreppstjóri í 30 ár og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga í 15 ár. Þetta er þó aðeins hluti af þeim félagsstörfum sem hann sinnti.
Níu ára gamall byrjaði Sturla sjómennsku á handfæraveiðum á vélbátnum Svani. Jón Einarsson, faðir hans, var formaður á bátnum. Þetta var að sumarlagi. Útilegan var oftast 4 til 6 dagar. Saltað var um borð. Frá fermingaraldri til 32 ára aldurs stundaði hann sjóinn. Þar af var hann formaður í 9 ár. Eftir það rak hann eigin útgerð í áratugi. Hann rak einnig fiskverkun í landi með öðrum en síðar sína eigin.

Þing Fjórðungssambandsins nutu ekki virðingar allra fremur en önnur þing. Eitt sinn sem oftar er þingið var haldið í Bjarkarlundi, sem jafnframt var greiðasölustaður, gerðist eftirfarandi:
Stór maður vexti, nokkuð við skál, spurði hverjir hinir prúðbúnu menn væru er sátu þar í hliðarsal. Honum var tjáð að það væru fulltrúar á Fjórðungsþingi. „Ég þarf að tala við þá andskota“ sagði hann og stefndi þar að. Sturlu var gert viðvart og fylgdust menn grannt með til hvaða ráða yrði nú gripið. Sturla gekk á móti manninum, hvessti á hann augun og hellti yfir hann af brennandi mælsku Haukadalsfrönsku, sem var verslunarþula á frönsku, kennd við Haukadal í Dýrafirði. Hinum stóra manni varð svo um þetta að hann tók ofan derhúfuna, hneigði sig og fór út. Þessa sögu sagði mér Jón Á. Jóhannsson sem þá var skattstjóri á Ísafirði. Hann, sem fleiri fundarmenn, höfðu mjög gaman af þessu atviki.“   (Sjá Frá Bjargtöngum að Djúpi X. bindi) 

 
« Febrúar »
S M Ţ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29