Úr fórum Vestfirska forlagsins: Til upplyftingar!
Af því að veðrið er nú svona eins og það er, ætti að vera vel viðeigandi að reyna að gera mönnum glatt í sinni. Á það nú reyndar við í hvaða veðri sem er, en sjaldan eins og nú. Munum við því á næstunni birta eina gamansama og fróðlega sögu úr öllum hreppum okkar gömlu Vestur-Ísafjarðarsýslu. Þær eru úr fórum Vestfirska forlagsins. Sú fyrsta er úr nyrsta hreppnum. H. S.
Haukdalsfranska á Fjórðungsþingi
Einhver nafnkunnasti maður á Suðureyri á 20. öld var Sturla Jónsson hreppstjóri. Sturla var eftirminnilegur persónuleiki. Hann var mikill baráttumaður fyrir Súgandafjörð. Hann sagði oft á þingum og vitnaði þá til þeirra dönsku: „Súgandafjörður besejles ikke.“ Ekki er siglt til Súgandafjarðar. Þetta taldi hann vott þess hversu staðurinn hafði oft verið afskiptur. Notaði það óspart til að fá menn í lið með sér í ýmsum baráttumálum Súgfirðinga. Vitnum nú í Ólaf Þ. Þórðarson, alþingismann, þegar hann minntist vinar síns í Mbl. 12/10 1996:
Dó ekki ráðalaus!
„Hann var oddviti Súgfirðinga í 24 ár, hreppstjóri í 30 ár og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga í 15 ár. Þetta er þó aðeins hluti af þeim félagsstörfum sem hann sinnti.
Níu ára gamall byrjaði Sturla sjómennsku á handfæraveiðum á vélbátnum Svani. Jón Einarsson, faðir hans, var formaður á bátnum. Þetta var að sumarlagi. Útilegan var oftast 4 til 6 dagar. Saltað var um borð. Frá fermingaraldri til 32 ára aldurs stundaði hann sjóinn. Þar af var hann formaður í 9 ár. Eftir það rak hann eigin útgerð í áratugi. Hann rak einnig fiskverkun í landi með öðrum en síðar sína eigin.
Þing Fjórðungssambandsins nutu ekki virðingar allra fremur en önnur þing. Eitt sinn sem oftar er þingið var haldið í Bjarkarlundi, sem jafnframt var greiðasölustaður, gerðist eftirfarandi:
Stór maður vexti, nokkuð við skál, spurði hverjir hinir prúðbúnu menn væru er sátu þar í hliðarsal. Honum var tjáð að það væru fulltrúar á Fjórðungsþingi. „Ég þarf að tala við þá andskota“ sagði hann og stefndi þar að. Sturlu var gert viðvart og fylgdust menn grannt með til hvaða ráða yrði nú gripið. Sturla gekk á móti manninum, hvessti á hann augun og hellti yfir hann af brennandi mælsku Haukadalsfrönsku, sem var verslunarþula á frönsku, kennd við Haukadal í Dýrafirði. Hinum stóra manni varð svo um þetta að hann tók ofan derhúfuna, hneigði sig og fór út. Þessa sögu sagði mér Jón Á. Jóhannsson sem þá var skattstjóri á Ísafirði. Hann, sem fleiri fundarmenn, höfðu mjög gaman af þessu atviki.“ (Sjá Frá Bjargtöngum að Djúpi X. bindi)