Upp með húmorinn í skammdeginu! - Samræður í messukaffi
Það var á þeim árum þegar séra Kári Valsson var þjónandi prestur á Hrafnseyri. Síðla hausts boðaði hann til messu á staðnum, en þá var nýafstaðin hundahreinsun í hreppnum. Þá var hundahreinsunarmaður í Auðkúluhreppi Gunnlaugur Sigurjónsson bóndi á Tjaldanesi, en hundahúsið var þar í svokölluðu Grjótnesi og var það auðvitað þýðingarmikið að allir kæmu með hunda sína til hreinsunar.
Eftir embætti var öllum boðið í messukaffi, eins og lengi hefur tíðkast til sveita. Sátu þeir skammt hvor frá öðrum, Gunnlaugur og Hákon J. Sturluson bóndi á Borg í Arnarfirði, sem þá var með skegg niður á bringu. Teygði Gunnlaugur sig í áttina að Hákoni og ávarpaði hann á þessa leið:
„Þú komst ekki með hundinn, helvítið þitt.“
„O, það er nú langur vegur í skammdeginu frá Borg alla leið út að Tjaldanesi,“ svarar þá Hákon.
„Þú áttir nú að koma samt,“ sagði Gunnlaugur snöggur upp á lagið, beygði sig áfram og tók þéttingsfast í skeggið á Hákoni og rykkti í. Lauk svo þeim viðskiptum í messukaffinu, að menn urðu að ganga á milli
(Sögn Ágústs Guðmundssonar frá Innri-Lambadal)