A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
19.01.2017 - 19:40 | Vestfirska forlagið,Styrmir Gunnarsson,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Umræðan: - Fjalldalabóndinn

« 1 af 6 »

Það er margt sem leitar á hugann við lestur bókar Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar um fjalldalabóndann Heiðu, sem bókaforlagið Bjartur gaf út nú fyrir jólin, en Heiða er ung kona, innan við fertugt, sem býr á Ljótarstöðum, efsta bæ í Skaftártungu.

Mín fyrsta hugsun við lestur þessarar bókar snerist um föðurömmu mína, sem hét Vilborg Runólfsdóttir og var fædd að Ásgarði í Landbroti en átti heima um skeið undir lok 19. aldar á Eintúnahálsi, sem var bær fjarri öllum öðrum byggðum en er nú eyðibýli sem finna má þegar ekið er inn í Laka. Þangað hef ég komið oftar en einu sinni og alltaf spurt sjálfan mig sömu spurningar: Hvernig í ósköpunum gat fólk lifað af á þessum stað (bæjarstæðið er fallegt) í myrkri og kulda 19.aldar? Sem barni var henni bannað að borða ber, þótt skortur væri á mat, vegna þess að fólk trúði því, 100 árum eftir Skaft- árelda, að þau væru eitruð.

Þegar Heiða á Ljótarstöðum talar við Steinunni um Kötlu finn ég sömu ógn og ég skynjaði sem barn hjá ömmu minni, þegar hún talaði um Kötlu.

 

Önnur hugsun sem leitaði á mig var þessi:
Mikið óskaplega er gaman að enn skuli vera til fólk eins og Heiða á Íslandi okkar tíma. Nútíma samfélag stuðlar að einsleitni þjóð- arinnar. Allir verða eins – eða svipaðir. Fyrir hálfri öld var mér sagt í Bandaríkjunum að sjónvarpið hefði átt þátt í að draga úr sérkennum þeirrar ensku sem töluð var í Suðurríkjunum. Getur verið að eitthvað svipað hafi gerzt hér? Sú var tíðin að íslenzkan sem töluð var þar fyrir austan bar einkenni einangraðar sveitar, eins og heyra mátti á æskuvinkonu minni, Brynju Benediktsdóttur leikstjóra. Og það eru ekkert voðalega margir sem enn tala íslenzku á þann veg sem Jón Baldvin Hannibalsson gerir, enda Vestfirðir ekki síður einangraðir fyrr á tíð en Skaftafellssýslur.

Þessi einangrun kom sér vel í fjárskiptunum um miðja síðustu öld. Sauðfjárstofn okkar í dag er að langmestu leyti kominn frá þessum tveimur landshlutum, sem mæðiveikin náði ekki til. Ég gleymi hvorki stund né stað, þegar ég eignaðist lamb og mátti velja úr lambahópnum, sem kom í Borgarfjörð frá Ströndum. Það var andlitsfríðasta lambið í hópnum!

Bókin um Heiðu er einhver áhrifamesti óður til íslenzks landbúnaðar sem ég hef lesið áratugum saman. Hvernig dettur fólki í hug að gera jafn lítið úr þessari atvinnugrein og stöðugt er gert í opinberum umræðum? Landbúnaður við erfiðar aðstæður eins og hér á þessari eyju, sem bæði Ljótarstaðir og Eintúnaháls eru skýr dæmi um, er ríkur þáttur í þjóðarvitund okkar. Enda voru sveitabæirnir ekki bara sveitabæir heldur menningarsetur fyrr á tíð. Raunar er þróun landbúnaðar í heiminum á þann veg vegna hlýnunar jarðar að ætla má að landbúnaður á Íslandi muni blómstra næstu áratugi, m.a. vegna þurrka og vatnsleysis sem sækja á suðlægari lönd.

 

Barátta fjalldalabóndans við fjármagnseigendur að sunnan færir okkur síðan nær nútímanum. Þar er öllum brögðum beitt til þess að brjóta á bak aftur bar- áttu Heiðu gegn fjármagninu sem vill leggja undir sig landið sem hún vill vernda fyrir komandi kynslóðir.

Það er ekki mikill munur á starfsaðferðum fjármagnsins í Skaftártungum eða 500 milljóna manna ríkjasambands, Evrópusambandsins, sem vill leggja Ísland undir sig og notaði m.a. til þess fé sem dreift var um landið fyrir nokkrum árum til þess að skapa sér vinsamlega ásýnd meðal eyjarskeggja. Útgáfa þessarar bókar verður hins vegar til þess að Heiða verður ekki lengur ein í baráttu sinni við virkjanafyrirtæki.

Kannski er þetta þó fyrst og fremst bók um þrautseigju. Heiða hefði getað haslað sér völl sem fyrirsæta í New York en kýs að gerast fjalldalabóndi í Skaftártungu. Lýsingar hennar á því starfi og þeim verkefnum sem því fylgja frá degi til dags eru áreiðanlega gullnáma fyrir fólk á suðvesturhorni landsins, sem fær þar einstaka innsýn í starf sauðfjárbóndans.

Þetta er líka bók um jafnréttisbaráttu kvenna. Heiða gengur í öll verk og skilur ekki muninn á karlaverkum og kvennaverkum. Og svo er þetta bók um það hvernig við höfum farið að því að lifa af í þessu landi í bráðum 1.200 ár.

Maður hafði orð á því við mig um daginn að landið hefði lagt sig fram við að losna við okkur allar þessar aldir. Fyrst og fremst með náttúruhamförum. Eldgos, snjóflóð, ofsaveður á sjó og landi til viðbótar við myrkur og kulda. Stundum með sjúkdómum. Við vorum orðin býsna fá fyrir nokkrum öldum.

En. Við höfum lifað af. Ekki sízt með því hugarfari sem einkennir Heiðu á Ljótarstöðum. Þessa bók á að lesa í öllum skólum landsins. Það á að kenna hana í öllum skólum. Ræða hana. Skrifa um hana ritgerðir. Þetta er kennslubók í að vera Íslendingur. Er ekki kominn tími til að taka það námsefni upp í skólum?

Það verður gaman að fylgjast með fjalldalabóndanum í framtíðinni. Hún er augljóst efni í forystumann fyrir friðun miðhálendis Íslands. Hún gæti lent inni á þingi, þar sem hún var í framboði í þingkosningunum í haust.

Ég er ekki alveg viss um að Steinunn Sigurð- ardóttir geri sér grein fyrir hvað hugmyndin sem hún fékk dag einn við eldhúsborðið á Ljótarstöðum getur átt eftir að hafa mikil áhrif.

 

Hugmyndir eru mikilvægar.

 

Morgunblaðið 7. janúar 2017.

 

Styrmir Gunnarsson.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31