A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
16.01.2017 - 06:44 | bb.is,Björn Ingi Bjarnason,Vestfirska forlagið

Tuttugu og tvö ár frá snjóflóðinu mannskæða í Súðavík

Súðavík við Álftafjörð í vetrarfeldi áður. Ljósm. © Mats Wibe Lund (1. mars 1989).
Súðavík við Álftafjörð í vetrarfeldi áður. Ljósm. © Mats Wibe Lund (1. mars 1989).
« 1 af 2 »
Þegar árrisult fólk kveikti á útvarpi að morgni 16. janúar 1995 hljómaði þar sorgartónlist og mátti ljóst vera að eitthvað skelfilegt hefði gerst. Og síðan komu fréttir, fremur óljósar í fyrstu: Snjóflóð hefði fallið á Súðavík, lagt hluta þorpsins í rúst og margir væru látnir. Þegar björgunarstarfi við mjög erfiðar aðstæður lauk var niðurstaðan þessi: Fjórtán manns fórust, þar af átta börn, og tólf slösuðust. Flóðið lenti á tuttugu húsum, en allmargir björguðust ómeiddir. 

Björgunaraðgerðir stóðu yfir dögum saman og barst liðsauki víða að. Þáttur leitarhunda reyndist ómetanlegur. Tíu ára drengur fannst á lífi eftir að hafa verið fastur í rústum undir flóðinu í sólarhring. Síðasta líkið fannst ekki fyrr en 37 klukkutímum eftir að flóðið féll. Þetta var mikil blóðtaka fyrir þorpið litla við Álftafjörð í Djúpi, þar sem á þessum tíma bjuggu um 230 manns. 

Snjóflóðið féll úr Súðavíkurhlíð og niður í gegnum byggðina um stundarfjórðung yfir klukkan sex. Sextán einbýlishús urðu fyrir flóðinu, sum eyðilögðust gersamlega en önnur skemmdust meira eða minna. Auk þess lenti flóðið á leikskólanum, skrifstofum Súðavíkurhrepps og sambyggðum verkstæðum, húsi Pósts og síma og íbúðablokk, en ekki varð tjón á henni. Seinna þennan dag féll einnig snjóflóð úr Traðargili litlu innar og eyðilagði þrjú hús, sem búið var að rýma. 

Í kjölfar snjóflóðsins mannskæða í Súðavík var byggðin flutt um set í land Eyrardals nokkru innar. Núna er „gamla Súðavík“ sumarbyggð. 


36 manns fórust í fjórum snjóflóðum 

Árin 1994 og 1995 varð manntjón í fjórum snjóflóðum á Vestfjörðum og fórust þar alls 36 manns. Í snjóflóði sem féll á sumarhúsasvæðið í Tungudal í Skutulsfirði að morgni 5. apríl 1994 fórst maður og eiginkona hans slasaðist. Hjón sem voru í öðrum bústað sluppu lítt meidd. Um 40 sumarbústaðir eyðilögðust í flóðinu, sem og flest mannvirki á skíðasvæði Ísfirðinga á Seljalandsdal. 

Tveimur dögum eftir snjóflóðið í Súðavík eða að kvöldi 20. janúar 1995 féll snjóflóð við bæinn Grund í Reykhólasveit. Þar fórst einn maður en sonur hans fannst á lífi eftir tólf tíma leit. Íbúðarhúsið á Grund slapp við flóðið en útihús hurfu að mestu. 

Síðasta lotan í þessari hrinu mannskæðra snjóflóða á Vestfjörðum var þó hörðust, í mannslífum talið. Tuttugu manns á ýmsum aldri létu lífið í snjóflóðinu á Flateyri aðfaranótt 26. október 1995. Nokkrir voru grafnir á lífi upp úr flóðinu. Eignatjón var gríðarlegt.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31