03.07.2012 - 13:20 | JÓH
Tuttugu lið á strandblaksmóti
Alls voru tuttugu lið skráð til leiks í öðru stigamóti Blaksambands Íslands sem fram fór á Þingeyri um helgina. Laufey Björk Sigmundsdóttir, einn skipuleggjandi mótsins, segir að aldrei áður hafi jafnmargir tekið þátt í stigamóti á Þingeyri og því var metþátttaka í ár. „Strandblakið er í mikilli uppsveiflu því áhugi á sportinu er að aukast. Þátttakendur í þessu móti voru að koma alls staðar að af landinu. Við vorum með þrjú lið að vestan en svo var fólk frá Neskaupsstað, Akureyri og Reykjavík, svo eitthvað sé nefnt. Flestir eru að koma með fjölskyldur sínar vestur og eru þá að dvelja lengur í senn." Keppt var í A og B deild kvenna, og í A deild karla, en mótið hófst í blíðskaparveðri á föstudagskvöld með leikjum í B deild kvenna. Spilað var langt fram á kvöld en keppnin hófst aftur snemma næsta morguns enda margir leikir á dagskrá. Laufey segir að þetta hafa verið hörkukeppni og leikir voru jafnir. „Mótið fór mjög vel fram. Við fengum líka frábært veður sem spillti ekki fyrir".
Í A deild kvenna sigruðu Fríða og Birta frá HK og í B deild kvenna báru þær Perla og María frá UFMA sigur úr býtum. Í A deild karla sigruðu þeir Emil og Eiki frá HK. Nánari úrslit er að finna á vefsíðunni strandblak.is og í þessu myndbandi á vestur.is má sjá brot úr leikjum helgarinnar.
Í A deild kvenna sigruðu Fríða og Birta frá HK og í B deild kvenna báru þær Perla og María frá UFMA sigur úr býtum. Í A deild karla sigruðu þeir Emil og Eiki frá HK. Nánari úrslit er að finna á vefsíðunni strandblak.is og í þessu myndbandi á vestur.is má sjá brot úr leikjum helgarinnar.