26.08.2016 - 10:49 | Vestfirska forlagið,HB - Grandi
Trausti Egilsson - KOMINN Í LAND EFTIR FARSÆLAN FERIL
,,Ég held að þetta verði að teljast ágætur lokatúr. Við fórum víða og aflinn var 866 tonn af fiski upp úr sjó og aflaverðmætið var áætlað 248 milljónir króna,“ segir Trausti en aflinn var töluvert blandaður; karfi, ufsi, ýsa og grálúða og svo einhverjir þorsksporðar með. Veiðarnar voru stundaðar frá Fjöllunum í suðri norður á Halamið með viðkomu á Látragrunni og í Víkurálnum. Strax að lokinni löndun í Reykjavík sigldi Trausti skipinu norður til Akureyrar þar sem það verður í þriggja vikna slipp.
Byrjaði hjá Granda árið 1987
Trausti er Suðureyringur að ætt og uppruna og hann ólst upp á Súgandafirði þar sem hann hóf jafnframt sjómennskuferilinn.
,,Ég byrjaði á bátum fyrir vestan, útskrifaðist úr farmannadeild Stýrimannaskólans 1972 og tók svo við skipstjórn á línubátnum Fjölni ÍS 1973 eða 1974. Fjölnir var hannaður sem línuskip og var fyrsti báturinn hérlendis með línubeitningarvél. Svo fór reyndar að beitningarvélin var fljótlega rifin úr bátnum og sett í land en það stafaði af því að hún var einfaldlega ekki nógu góð. Við hefðum þurft að vera með Mustad beitningarvél í þessu skipi,“ segir Trausti en síðar tók hann við skipstjórn á togaranum Elínu Þorbjarnardóttur ÍS frá Suðureyri.
,,Ég fluttist svo suður árið 1985 og tók við svokölluðum tappatogara sem hét Dreki HF og Sjólastöðin gerði út. Það skip hét áður Bjarnarey. Síðan var ég með Dagstjörnuna frá Keflvík áður en ég byrjaði á togaranum Ásbirni RE hjá Granda. Ári seinna tók ég við skipstjórn á Ásbirni RE og þegar Örfirisey RE kom til landsins frá Færeyjum árið 1992 var ég gerður að skipstjóra þar,“ segir Trausti en hann getur þess að til þess að Grandi hafi fengið leyfi til að flytja inn svo stórt skip hafi þurft að úrelda fleiri rúmmetra á móti en sem nam stærð þess skips sem vék fyrir Örfirisey. Meðal annars þess vegna hafði Grandi fest kaup á Elínu Þorbjarnardóttur og einhverjir rúmmetrar úr Suðeyrartogaranum voru notaðir til að greiða leið Örfiriseyjar inn í íslenska flotann. Elín Þorbjarnardóttir var hins vegar seld til Chile.
Trilluna nota ég til heilsubótar
Það voru töluverð viðbrigði fyrir Trausta og aðra sjómenn að fara yfir á Örfirisey enda hefur skipið alla tíð verið gert út sem frystitogari. Veiðiferðirnar eru því mun lengri en menn eiga að venjast á ísfisktogurunum.
,,Þetta var skrýtið til að byrja með en ekki erfitt. Það kemst upp í vana að vera mánuð á sjó,“ segir Trausti en síðustu árin hefur hann verið skipstjóri á móti Símoni Jónssyni sem áður var fyrsti stýrimaður hjá Trausta. Nú þegar Trausti fer í land tekur Ævar Jóhannsson við sem skipstjóri á móti Símoni en Ævar hefur verið skipstjóri á Höfrungi III AK.
En hvað tekur við eftir allan þennan tíma á sjó?
,,Ég kvíði því ekki að hafa ekki nóg fyrir stafni. Það er nokkuð síðan ég keypti mér trillu en hana nota ég mér til heilsubótar. Svo fer ég reglulega vestur. Ég á foreldra á lífi á Suðureyri og það er alltaf gott að geta vitjað æskustöðvanna,“ segir Trausti Egilsson.